140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

höfuðborg Íslands.

29. mál
[17:28]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki ætlaði ég út í pólitískt persónulegt karp um atkvæðaveiðar og slíkt en sá er kannski mestur munur á mér og hv. þm. Merði Árnasyni að hann hefur alltaf verið í framboði, það hef ég aldrei verið, ég hef verið í eftirspurn. Það er mikill munur á því.

Ástæða er til að minna hv. þingmann á það að u.þ.b. 500 þús. farþegar fara um Reykjavíkurflugvöll á hverju ári. Auðvitað er það atvinnuskapandi. Og þó að menn séu stundum að ergja sig út í höfuðborgina af því að hún hefur svo mikið forskot á margan hátt er lítið um það úti á landsbyggðinni að menn séu að tala illa um borgina þó að þeir skjóti svona smávegis. Reykjavíkurborg eða þeir sem búa í henni hafa mikið forskot varðandi skóla, heilbrigðisþjónustu, menningarlíf, fjölbreytni í íþróttum og svo mætti lengi telja. Það eru þau hlunnindi sem Reykjavík býr við sem höfuðborg umfram aðrar byggðir landsins.

Það er svolítið blint finnst mér, eins og hv. þingmaður gerir, að hampa Reykjavík sem einhverri sérstakri paradís umfram aðrar byggðir landsins. Þannig á það ekki að vera. Þetta minnir á það þegar Stefán frá Möðrudal spurði einu sinni austur á landi fína frú sem átti þrjár dætur hvort hún ætlaði ekki að fara að gifta þær og þá svaraði þessi ágæta kona: Nei, ég ætla að fara með mínar dætur til Reykjavíkur svo þær geti kynnst Íslendingum. Annars staðar voru þeir nú ekki, Íslendingarnir.