140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

hafnir.

85. mál
[18:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðuna langa, en mér fannst ástæða til að stíga í ræðustól í tilefni ræðu hv. þm. Árna Johnsens og þess frumvarps sem hann flytur sem er að mörgu leyti merkilegt. Ég stóð sjálfur í ræðustól árið 2003, dögum ef ekki vikum saman, til að ræða hafnamálin á nákvæmlega sömu forsendum og hv. þingmaður gerði. Það sem gert var með breytingu á hafnalögunum 2003 var að þá voru hafnirnar settar undir samkeppnislög. Ég man eftir því að þáverandi samgönguráðherra sagði að það stæði ekki til að skerða hlut hafna á landsbyggðinni, ekki stæði sinn vilji til þess. Ég trúi því að svo hafi verið. Ég man að ég sagði þá: Þú færð engu um það ráðið vegna þess að við erum að taka hafnirnar og setja þær undir annað regluverk þar sem það verður dæmt ólöglegt að veita slíka styrki.

Mér finnst athyglisvert hverjir eru flutningsmenn þessa frumvarps. Ég tók eftir því hvað hv. þingmaður sagði um þau mistök sem átt höfðu sér stað. Mér finnst menn vera menn að meiri þegar þeir tala á þann veg og mér finnst þetta frumvarp mikillar athygli vert og mun skoða það mjög rækilega. Við þurfum að skoða það í þinginu hvort vilji er til að taka þessi mál upp frá rótum.