140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

Þríhnúkagígur.

65. mál
[18:39]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Tillagan til þingsályktunar sem ég mæli fyrir ásamt allmörgum þingmönnum hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á innanríkisráðherra að hefja nú þegar skipulagða vinnu til þess að fylgja eftir hugmyndum um að gera Þríhnúkagíg í Bláfjöllum, stærsta hraunhelli í heimi, aðgengilegan fyrir ferðamenn með lagningu vegar að hnúknum og göngum í hann.“

Áhugamenn um þetta verkefni hafa unnið talsverða vinnu í þessu sambandi. Ekki er langt síðan Þríhnúkahellir fannst, þ.e. að farið var í botn hans. Það eru rúmlega 20 ár. Þessi hellir er ekki bara náttúruundur, hann er undur. Hann er í einum af þremur gígum, Þríhnúkunum á Bláfjallasvæðinu. Hann er um 6 kílómetrum sunnan við skíðasvæðið og 3 kílómetrum frá þjóðveginum eða akstursleið sem liggur frá Suðurlandsvegi í Hafnarfjörð.

Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessum helli. Hann er 160 metra djúpur. Meginbotninn í honum er þó á 120 metra dýpi og farið er ofan í hann beint úr gígtappanum sjálfum. Þar er gatið, svo menn átti sig aðeins á því, um 6 metrar á lengd og 1–2 metrar á breidd. Opið er því ekki stórt en síðan snarvíkkar hellirinn á leiðinni niður, og á 120 metra dýpi er eins og maður standi á fótboltavellinum í Laugardal. Ofan í gígnum gætu verið tvær Hallgrímskirkjur hvor ofan á annarri og næðu þó ekki upp úr.

Ég fór fyrir stuttu ofan í hellinn. Ég reyndi það fyrir mörgum árum en hafði ekki nógu langt tóg með mér, þá var ekki fyrirhyggjunni fyrir að fara, og var hífður upp eins og dinglandi heypoki án þess að komast til botns, um 90 metrum ofan við botninn.

Ég hef séð ýmsa stóra hella víða um heim en það er með ólíkindum að koma í þennan helli. Hann er hvort tveggja í senn mikilúðlegur og ógnandi en um leið er hann undurblítt listaverk í mögnuðum litum og formi, í bergi eins og brennt hafi verið í stóru leirkeri. Þegar maður kemst í tæri við svona náttúrusmíðar lítur maður svolítið öðrum augum á lífið. Það gerist eitthvað, eins og þetta sé einhver skóli sem maður er tuskaður til í, að minnsta kosti lærist manni það þegar maður fer í slík náttúruundur að yfirleitt tekur því ekki að rífa kjaft yfir því.

Áhugamannahópurinn sem hefur nú bæst liðsauki, þ.e. Kópavogur, Icelandair og fleiri aðilar, vinnur að framgangi á verki sem mundi gefa öllum ferðamönnum færi á að sjá undrið. Í því sem unnið hefur verið er ekki reiknað með gönguleið niður á botn hellisins, enda er hann mjög stórgrýttur, heldur að göng verði gerð inn í miðjan hellisranann og að þar verði eins konar svalir, nánast gerðar af höndum náttúrunnar þar sem víkkar út. Þar geta menn séð allt sem skiptir máli í hellinum. Þetta er ekki bara sett fram til að hafa gaman af heldur líka gagn. Það er magnað að upplifa slíkt náttúrumannvirki og það væri magnað ef allir ættu kost á því, hvort sem þeir eru ungir eða aldnir. Það er hægt með þeirri uppsetningu sem miðað er við í hellinum og engin spurning er um að það mannvirki yrði tekjuöflun fyrir Íslendinga. Þegar maður er búinn að sjá þennan helli og hefur verið, eins og ég gat um, í ýmsum hellum víða um heim er alveg ljóst að menn mundu gera sér ferð til Íslands eingöngu til að koma í þennan helli.

Hjá sumum er það sjónarmið að ekki eigi að hleypa fólki að neinu slíku. En það er sjónarmið mitt og reyndar margra sem betur fer að gefa eigi fólki kost á að njóta náttúrunnar, nálægðarinnar og fegurðar en þó með þeirri varfærni að það skemmi ekki hluti.

Í samanburði við þetta nefni ég að eitt sinn stóð ég fyrir tónleikum, sem oft eru, í Kerinu í Grímsnesi. Fyrir tónleikana var mjög gagnrýnt að mikið drasl yrði á gígsvæðinu þar. 8 þús. manns mættu á tónleikana og draslið sem var tínt upp fyllti hálfan innkaupaplastpoka, það var ekki meira, og var fljótgert. Það er hægt að stýra slíkum þáttum með því einfaldlega að skipuleggja þá.

Verið er að gera kannanir. Umhverfisstofnun og fleiri hafa skoðað hvort hætta kynni að vera í því að opna leið þarna um. Það er svolítið langsótt að mínu mati, þótt ekki væri nema með tilliti til þess að þetta er gert við Gvendarbrunna. Umferðarleiðirnar á svæðinu, t.d. þær sem ég gat um áðan frá Sandskeiði að Hafnarfirði, skapa vissulega ákveðna hættu. Ef olíubíll eða eitthvert tæki, bíll með olíu eða bensín, mundi laskast er auðvitað hætta á einhverri mengun af því. Hve mikil skal ég ekki segja, ég kann ekki að meta það, en þetta er spurning um að bæta við einum þætti í djásn landsins sem yfirleitt njóta birtu hvern dag. Þarna þarf maður að hafa góð ljós.

Vonandi gengur þetta eftir og því er tillagan sett fram. Við flutningsmenn teljum þó mikilvægt að Ísland nýti alla svona möguleika með fullkominni varfærni, nýti þá og gefi fólki kost á að sjá okkar dýrustu perlur. Við teljum nauðsynlegt að innanríkisráðuneytið komi að málinu vegna þess að þarna er fyrst og fremst verið að skapa samgönguleið að því sem er endastöð á leiðinni í hellinn þar sem menn geta séð yfir allt svæðið, upp og niður. Eftir að hafa skoðað þetta er ljóst að ekki yrði um freka framkvæmd að ræða eða yfirgnæfandi. Hún yrði í rauninni mjög látlaus, svona eins og fyrir bjargfugla á syllu.

Okkur finnst mikilvægt að hæstv. ráðherra, ráðuneyti og ríkisstjórn komi að málinu á einhvern hátt. Því er stillt upp þannig að ljúka þarf rannsóknum sem kosta um 40–50 milljónir, síðan þarf að fara í framkvæmdir og til að geta gert það er þessu viðskiptadæmi stillt upp þannig að ef þeir sem gera þetta sameiginlega geta aflað 300–400 milljóna þarf ekki meira til að ljúka verkefninu. Það sem á vantaði væri hægt að taka að láni og láta svæðið borga sig sjálft að því leyti að tekjuöflun við að heimsækja stærsta helli í heimi mundi skila þessu á sjö eða átta árum.

Fyrst og fremst er spurning í stöðunni um að ekkert skemmist með þessu, að hægt sé að halda þessu í því horfi að ekki sé hætta á einhverjum umhverfisskemmdum. Þá varðar það helst það svæði þar sem aflað er vatns, eins og í Gvendarbrunnum, þó að það sé í rauninni nokkra kílómetra frá. Þetta er allt sama vatnasvæðið, bæði yfirborðsvatn og grunnvatn. Það eru atriði sem vísindamenn munu leiða í ljós, þeir sem gerst til þekkja. Það er spennandi að íslensk stjórnvöld komi formlega að þessu á einhvern hátt, ég skal ekki segja hvernig, en það þarf ekki endilega að vera með miklum peningum, þó væntanlega einhverjum, heldur að taka þátt í því að hjálpa þessu verkefni áfram, hjálpa því að menn geti skoðað á Íslandi stærsta helli í heimi, undurfagra dvergasmíði þótt stór sé.