140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Maður stendur stundum á eintali í ræðustól en ég hyggst halda áfram samtali við hv. þm. Róbert Marshall sem kom hingað upp í gær. Þar ræddi hann aðeins um stöðu samgöngumála í Vestmannaeyjum og fór í gegnum þær hugmyndir sem hann vildi leggja áherslu á að farið yrði í til að bæta úr því ástandi sem þar er.

Samgöngumál hvíla nú mjög þungt á Eyjamönnum og nágrönnum þeirra á Suðurlandi. Ég minni hv. þingmenn á hvers konar geysileg breyting Landeyjahöfnin er í samgöngumálum. Menn kvörtuðu aðeins í Vestmannaeyjum yfir því að erfiðlega hefði gengið að koma fólki til Eyja á þjóðhátíð á þessu ári en þrátt fyrir það sem og úrhelli og vandræði þar að lútandi varð þjóðhátíðin í ár önnur stærsta þjóðhátíðin frá upphafi þess að byrjað var að halda þær. Það er líka þessa dagana verið að koma í fyrsta skipti með malbik í vegalagningu í bæjarfélaginu þannig að sú framkvæmd sem tekin var ákvörðun um skilar árangri þegar höfnin er opin eins og til var ætlast og stefnt var að.

Við megum ekki gleyma því að verkefnið er aðeins hálfnað. Það lá alltaf fyrir að það skip sem er í notkun núna væri of stórt og of djúprista. Við þurfum að ljúka verkefninu og taka ákvörðun um að fara í smíði á nýrri ferju og líka tryggja samhliða að hægt sé að halda höfninni opinni með nauðsynlegri sanddælingu.

Ég geri líka athugasemdir við það að á sama tíma og þessi óvissa er uppi um höfnina með þeim erfiðleikum og vonbrigðum sem Eyjamenn hafa orðið fyrir sé tekin ákvörðun um að hækka (Forseti hringir.) fargjöld til Vestmannaeyja um 15%. Ég held að Vestmannaeyingar séu alveg tilbúnir að borga sitt og hafa gert það í gegnum tíðina (Forseti hringir.) hvað varðar framlag til samfélagsins en þá þurfum við að standa við það sem var lofað í upphafi um (Forseti hringir.) þessa samgöngubót.