140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það fær á sig ýmsar myndir, aðlögunarferlið sem Íslendingar eru í gagnvart Evrópusambandinu. Það var forsætisráðherrafundur á Norðurlöndunum í gær og þar ræddi hæstv. forsætisráðherra málin við nýjan forsætisráðherra Dana, en Danir taka við formennsku í ESB um næstu áramót og gegna formennsku til 30. júní 2012. Það er talið að þeir kaflar sem á eftir að opna verði allflestir opnaðir á þessu tímabili og sumum verður lokað þannig að Danir koma til með að stjórna þessu.

Það sem vakti furðu mína, og ég leyfi mér að lýsa hneykslan minni á, er að hin nýja ríkisstjórn sem tekin er við í Danmörku áréttaði sérstaklega í ríkisstjórnarsáttmála sínum, takið eftir, að ríkisstjórnin hygðist styðja með virkum hætti við aðildarferli Íslands að ESB. Ég vil meina að það sé einsdæmi að ríki skipti sér svo af innanríkismálum annars ríkis að slíkt þyrfti að ræða á vettvangi þeirra ríkja. Þetta væri svipað og að það færi í ríkisstjórnarsáttmála á Íslandi að Íslendingar styddu mjög sjálfstæðisbaráttu Færeyinga. Slíkt á ekki heima í ríkisstjórnarsáttmála. (Gripið fram í: En Palestína?) Hér kalla samfylkingarmennirnir Palestína, Palestína enda ber hæstv. utanríkisráðherra, samflokksþingmaður ykkar, ábyrgð á þeirri þingsályktunartillögu (Gripið fram í.) sem nú er til umræðu en það er ekki það sem hér um ræðir. Þetta er í ríkisstjórnarsáttmála og það er ég að benda á, hv. þingmenn Samfylkingarinnar.