140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og öllum hv. þingmönnum er kunnugt var samdráttur á Íslandi mikill eftir efnahagshrunið. Með aðgerðum stjórnvalda voru áhrif kreppunnar milduð með minni niðurskurði á velferðarstofnanir og einnig eru tilfærslur til heimila og bótagreiðslur eftir hrun umtalsvert hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en í svokölluðu góðæri. Ástæðan er sú að verg landsframleiðsla dróst saman og hlutfallið því hærra vegna þess að tilfærslur og bótagreiðslur drógust ekki saman að sama skapi, en einnig eru bætur hærri nú en fyrir hrun. Fjárhæðum er skipt með allt öðrum hætti en áður og megináherslan er á að auka jöfnuð og verja þá tekjulægstu.

Virðulegur forseti. Ég minni á að þótt erfiðleikar of margra heimila séu verulegir hefur þróunin frá árinu 2004 verið sú að hlutfall aldraðra í miklum erfiðleikum með að ná endum saman hefur lækkað verulega en hlutfall heimila í miklum erfiðleikum almennt fór úr 9% árið 2004 í 13% 2010. Ástandið fer hægt batnandi frá hruni en það er áhyggjuefni að um helmingur heimila segist eiga í erfiðleikum með að ná endum saman í samanburði við þriðjung heimila í góðærinu svokallaða. Við því þarf að bregðast.

Tekjuskattsbreytingar stjórnvalda hafa skilað tilætluðum árangri. Kjaraskerðing var í öllum tekjuhópum við hrunið, hlutfallslega minnst hjá láglaunahópum en mest hjá þeim tekjuhæstu. 60% launþega greiða hlutfallslega lægri skatta nú en fyrir hrun. Hins vegar greiða 40% launþega, þau sem hafa hæstu tekjurnar, hlutfallslega hærri skatta.

Ójöfnuður jókst verulega á árunum fyrir hrun en nú hefur jöfnuður aukist sem er mjög jákvætt því að viðurkenndar rannsóknir sýna nefnilega að auknum jöfnuði fylgi betri félagsleg og andleg vellíðan (Forseti hringir.) allra í samfélaginu.