140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að vekja máls á þeirri ágætu skýrslu sem við fjölluðum um á fundi okkar í morgun. Skýrslan er virkilega vel gerð. Hún er eins og skýrslur eftirlitsnefnda eiga að vera. Í henni er talað bæði um það sem vel er gert og bent mjög ákveðið á það sem betur má fara og þar er sérstaklega bent á að 110% leiðin sé að mörgu leyti of þröngt skilgreind og að betra samræmi þurfi að vera á milli bankanna. Bönkunum er að vísu hrósað mjög fyrir það að ekki virðist vera neitt misræmi á milli þess hvernig viðskiptavinum er leiðbeint innan hvers banka í gegnum þessa leið eða á þjónustunni sem þeir fá. Aftur á móti kemur í ljós að því miður er smámismunur á milli bankanna hvernig leiðin er útfærð.

Ég verð að viðurkenna að ég er sammála því sem fram kom í máli þeirra nefndarmanna sem sátu með okkur í morgun. Þeir telja að það sé ekki ástæða til að fara í sérstaka lagasetningu. Það þurfi aftur á móti eða væri gott að taka það samkomulag sem gert var á milli fjármálafyrirtækja upp aftur, skoða það nánar og ekki væri verra að búinn yrði til einhvers konar samstarfshópur í kjölfarið sem fylgdi síðan málum eftir og aðilar fjármálafyrirtækjanna gætu leitað til með vafamál. Það gæti orðið meira og betra samræmi á milli fjármálafyrirtækja með því að taka upp slíkt samkomulag og búa til einhvers konar samstarfshóp.