140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég er mjög jákvæð í dag. Mig langar að halda aðeins áfram umræðunni um skýrslu eftirlitsnefndarinnar sem kom á fund velferðarnefndar í morgun og mig langar að beina nokkrum spurningum til varaformanns nefndarinnar, hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur.

Félags- og tryggingamálanefnd lagði fram breytingartillögu við lögin nr. 107/2009 um að þessari eftirlitsnefnd yrði komið á fót. Við vorum mjög bjartsýn og jákvæð og héldum að það mundi takast hratt og vel að vinna eftir þessum lögum við úrlausn á skuldavanda heimilanna og þess vegna er ákvæði í þeim lögum að eftirlitsnefndin hafi líftíma fram að áramótum. Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hún muni beita sér fyrir því að nefndin starfi áfram. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og lýsi því hér með yfir að ég mun styðja slíka tillögu og þá slíka lagabreytingu.

Síðan langar mig að beina þeirri fyrirspurn til þingmannsins með hvaða hætti þeim ábendingum sem komu fram í skýrslu nefndarinnar yrði fylgt eftir. Er það skoðun hv. þingmanns að það sé nefndarinnar að mynda sér einhverja skoðun á þeim málum eða er það einfaldlega viðskiptaráðuneytisins að gera það? Ég spyr vegna þess að félags- og tryggingamálanefnd beitti sér mjög í þessum málum og það er mín skoðun að hin nýja velferðarnefnd eigi einnig að gera það.

Síðan langar mig að ræða aðeins um það álitaefni sem birtist í niðurstöðu nefndarinnar er snýr að lífeyrissjóðunum. Lífeyrissjóðirnir eru aðilar að flestöllum þeim lánsveðum sem eru í kerfinu og þau mál eru öll óleyst. Það kemur fram í niðurstöðum eftirlitsnefndarinnar að lífeyrissjóðirnir séu orðnir einhvers konar „free riders“, með leyfi forseta, þ.e. að þeir taki í rauninni ekki þátt í því að leiðrétta eða leysa skuldavanda heimilanna (Forseti hringir.) en njóti góðs af því að aðrar lánastofnanir gefa eftir skuldir. (Forseti hringir.) Hvaða tillögur og hugmyndir hefur hv. þingmaður í þessu efni?