140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Vaxtahækkun Seðlabankans í dag er mikil vonbrigði. Hún er vonbrigði vegna þess að atvinnuleysi er enn þá mikið, fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki og verðbólgan sem Seðlabankinn reynir að slá á virðist fyrst og fremst drifin áfram af launahækkunum sem Seðlabankinn telur að séu að öllum líkindum óraunhæfar. Allir málsmetandi menn sem fjallað hafa um málið í dag lýsa miklum vonbrigðum og segja að þetta muni seinka efnahagsbatanum.

Það eru vissulega ákveðnar tölur í Peningamálum Seðlabankans í dag sem við getum tekið af hóflegri jákvæðni. Þar segir að hagvöxtur sé aðeins meiri en menn spáðu fyrir um en hagvöxturinn er líka að koma úr kjallaranum. Við erum að koma úr kjallaranum í efnahagslegu tilliti. Það er algerlega ótímabært fyrir menn að stíga upp og fagna einhverju nýju hagvaxtarskeiði. Við vöxum á hraða snigilsins og við þurfum atvinnuvegafjárfestingu sem Peningamál dagsins í dag staðfesta að skila sér ekki. Fjárfesting í atvinnulífinu er við sögulegt lágmark og kröftugur vöxtur einkaneyslu á fyrri hluta þessa árs virðist fyrst og fremst byggður á launahækkunum sem Seðlabankinn hefur áhyggjur af.

Einkaneyslan er svo sem líka í kjallaranum. Aðalatriðið er að hér skortir enn þá nýja fjárfestingu, ný verkefni og hagvöxt sem byggir á verðmætaaukningu en ekki á vaxtabótagreiðslum ríkisins til einstaklinga sem eru í skuldavanda. Við þurfum að leggja af stað með alvöruverðmætasköpun og því miður (Forseti hringir.) eru allar líkur á að vaxtahækkun Seðlabankans muni seinka því að við sjáum slíka (Forseti hringir.) verðmætasköpun í landinu.