140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

aukin fræðsla í skólum um skaðsemi áfengis.

67. mál
[15:53]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er tillaga til þingsályktunar um aukna fræðslu í skólum um skaðsemi áfengis, þ.e. að Alþingi álykti að fela mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að aukin verði fræðsla um skaðsemi áfengis í grunn- og framhaldsskólum.

Sem betur fer benda rannsóknir til þess að undanfarin ár hafi dregið nokkuð úr ölvunardrykkju ungmenna á grunnskólaaldri. Betur má þó ef duga skal. Sömu þróunar gætir meðal framhaldsskólanemenda þó að samdráttur neyslu sé þar minni. Rannsóknir sýna einnig að fjöldi ungmenna sem neytir áfengis meira en tvöfaldast á þeim örfáu mánuðum frá því að grunnskóla lýkur og þar til framhaldsskólanám hefst. Það er því brýnt að taka enn fastar á áfengismálum íslenskra ungmenna. Fyrir því liggja gild rök.

Það er líka merkilegt að aukningin í áfengisneyslu skuli taka slíkt stórt stökk á örfáum mánuðum á milli grunnskóla og framhaldsskóla. Það sýnir að kannski væri auðveldara að takast á við þann vettvang, auka þar forvarnir og virkja hið glæsilega unga fólk okkar til að draga úr þessari óheillaþróun.

Skaðsemi áfengisdrykkju fyrir tvítugt er fjölþætt. Því yngri sem unglingarnir eru þegar þeir byrja að neyta áfengis og því meira magn sem þeir drekka, þeim mun verri áhrif hefur áfengisneyslan á heila þeirra. Þroskatími heilans fram að tvítugu er afar mikilvægur enda verður heilinn ekki fullþroska fyrr en við 20 ára aldur. Af framangreindu má sjá að önnur heilsutengd vandamál, vandamál tengd félagslegri hæfni og hegðunarvandamál hafa talist til fylgifiska slíkrar áfengisneyslu. Þá er rétt að benda á þau hliðrænu áhrif sem felast í skorti á dómgreind sem leiðir til glannaskapar, slysa vegna ölvunaraksturs, ofbeldis, misnotkunar og sjálfsvíga. Hætta á þunglyndi er mun meiri meðal unglinga sem neyta áfengis en þeirra sem ekki drekka. Slíkir unglingar kljást frekar við sjálfsvígshugsanir, eiga oftar í félagslegum vanda og árásargirni þeirra eykst í hlutfalli við drykkjuna.

Hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni liggja fyrir upplýsingar um að allt að fjórðungur dauðsfalla Evrópubúa á aldrinum 15–29 ára sé óbeinar afleiðingar áfengisneyslu, svo sem vegna umferðarslysa, eitrana, sjálfsvíga og morða.

Það er stórt verkefni og viðfangsefni, virðulegi forseti, að taka föstum tökum þetta gríðarlega samfélagsvandamál. Það skaðar samfélagið allt, skaðar fjölskyldur, tvístrar, veldur sárum og skapar orð í orðræði æðisins sem er það versta sem til er í okkar samfélagi. Ekkert er eins brothætt og orð, þau falla oft þung, stór og vanhugsuð hjá því fólki sem er svo ólánsamt að hafa flækst í net Bakkusar. Því má heldur ekki gleyma að stór hluti af sjúkrahúsum landsins er upptekinn vegna sjúkdóma af völdum áfengis og tóbaks. Áfengið er fljótara að skemma, tóbakið seinvirkara, en bítur ekki síður ef til lengdar lætur.

Þetta er mál, virðulegi forseti, sem er mikilvægt að takast á við, láta það ekki fljóta hjá garði, heldur snúa sér að vandamálinu og leysa úr því. Það eru mörg úrræði. Það er stórkostlegur fjárfestingarmöguleiki fyrir íslenskt samfélag að skera nú upp herör gegn áfengisneyslu, ekki síst áfengisneyslu ungs fólks sem er að leggja inn á framtíðarbraut sína og situr svo uppi með alls konar dragbíta, ankeri og vandamál vegna þess að áfengisneyslan er of snar þáttur í hvunndagslífi þess.