140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

ljóðakennsla og skólasöngur.

75. mál
[16:11]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hægt væri að fjalla um margt sem mætti teljast fánýtt í kennslu og námskrá. Ég nefni bara eitt dæmi sem er á sama sviði og ljóðagerðin, þ.e. þegar verið er að troða í æsku landsins nútímabókmenntum, texta sem er ekki bara torskilinn, heldur er það bara hipsumhaps hvernig menn skilja hann. Þetta er dæmi um slíkt, en ég er ekki að fjalla um það, ég læt það liggja á milli hluta.

Ég legg bara höfuðáherslu á að ljóðalesturinn, ljóðalærdómurinn skiptir miklu máli og látum hitt sigla hjá. Þetta er tillaga til að bæta þann þátt sem skiptir svo miklu máli í samfélagi okkar og þeim þætti er langt frá því fullnægt í skólakerfinu.

Í fyrsta lagi er engin samræmd regla um það hvar söngur er og hvernig. Engin. Ef einhverjum skólastjóra hugnast ekki eða líkar ekki slíkur þáttur er honum sleppt og það þarf ekki að fletta upp í mörgum skólum til að sjá það. Þetta er fyrst og fremst áhersla á það að nota hráefni okkar, tunguna, til þess að efla andann.