140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

ljóðakennsla og skólasöngur.

75. mál
[16:15]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er kannski ekki eiginlegt andsvar heldur vil ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir þetta þingmál. Það er fátt og sennilega ekkert sem yddar betur máltilfinningu og málþekkingu fólks en að læra ljóð og kunna að skrifa ljóð og að vanda sig við að skrifa ljóð er tæknileg notkun á málinu sem tekur öllu öðru fram. Ég þekki það sjálfur eftir að hafa reynt að fikta við það með ýmsum afleiðingum, það er vandasamt en það kennir manni að fara með málið betur en nokkuð annað. Það kennir fólki að hugsa og kennir fólki að tala ef rétt er á málum haldið. Það kennir fólki kannski það sem meira er um vert, og er ekki síst umhugsunarefni fyrir þingmenn líka, að segja mikið með fáum og vel völdum orðum.

Vonandi fær tillagan framgang og vonandi nær málið það langt að það nái að efla betur málvitund og þroska fólks í þessum geira.

Hvað varðar söng á sal og söng í skólum þá er ég svo sem sammála því atriði. Það gæti vel hugsast að eftir svona fimm ár yrði t.d. brekkusöngurinn frægi ekki eins ómstríður og hann er stundum, heldur fagurhljómandi englasöngur eftir nokkurra ára kennslu í skólum landsins og söng á sal, þannig að ég fagna líka tillögu um meiri söng. Söngur er bara hollur og söngur er skemmtilegur. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það.