140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

ljóðakennsla og skólasöngur.

75. mál
[16:19]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þór Saari og þakka fyrir þessa tillögu.

Við ræddum hérna um daginn nýlega niðurstöðu, nokkuð sláandi, úttektar á læsi skólabarna, sérstaklega drengja, sem hefði farið mjög aftur. Við vitum að góð kunnátta í lestri er undirstaða allrar annarrar menntunar. Ef maður er ekki almennilega læs nær viðkomandi engum árangri í öðrum fögum hvort sem er í stærðfræði eða öðru, það gefur augaleið. Þess vegna er sláandi að heyra að talsverð prósenta 15 ára drengja, sem eru að komast á unglingsár og fullorðinsár, skuli vera treglæsir eða illa læsir. Það er mjög alvarlegt mál. Þessi ágæta tillaga um ljóðakennsluna varpar mynd á þetta mál af því að við þurfum að taka upp mun einstaklingsmiðaðri kennslu á mörgum sviðum, sem hefur sjálfsagt verið þróunin á seinni missirum, og bæta, breyta og efla íslenskukennsluna og móðurmálskennsluna með ýmsum hætti. Ég held að ljóðakennsla skipti mjög miklu máli í því.

Ég, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, lærði utan bókar upp úr bláu bókinni og hafði reyndar mjög gaman af og hef alltaf haft gaman af að fletta henni síðan. En það hlýtur að vera hægt að þróa það með einhverjum hætti þannig að það ofbjóði heldur ekki þeim sem hafa minni áhuga o.s.frv.

Mér þykir þessi tillaga mjög góð og hv. þingmaður mælir fyrir mörgum ágætum málum í dag, sem er gott framtak hjá honum og vekur athygli á mörgum góðum málum. Ég er meðflutningsmaður á þónokkrum þeirra og ekki tími til að fara í ítarlega umræðu um þau öll í dag en mörg þeirra eru góð. Eitt af þeim er þetta sem vekur athygli á þætti í uppeldi og menntun barna sem skiptir mjög miklu máli, þ.e. þekking og kunnátta á ljóðunum sem er svo ríkur þáttur í okkar menningu.