140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

ljóðakennsla og skólasöngur.

75. mál
[16:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég tek heils hugar undir það. Ég bendi á að eitt ágætt ljóðskáld okkar, Þórarinn Eldjárn, hefur tekið Völuspá og er að taka fleiri fögur ljóð til að færa þau nær nútímanum, boðskapurinn er hinn sami en hann færir ljóðin yfir á tungumál okkar tíma og þar af leiðandi nær nemendum.

Ég tek undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að þeir sem eru vel tölvulæsir geta svo sannarlega náð sér í upplýsingar og unnið með þær. Ég hef ekki lesið þá skýrslu sem hér hefur verið nefnd en mér segir svo hugur um að þar sé verið að kanna hið hefðbundna læsi á bók, til að lesa sér til gagns. Þá þurfum við kannski að hugsa um að til er margs konar annars konar læsi. Hvers konar læsi ætlum við að byggja upp hjá börnum fyrir framtíðina? Þá er ekki nóg að byggja upp hefðbundið læsi á bókina heldur þarf að byggja upp margs konar annars konar læsi til að börnin okkar, barnabörnin og þeir sem taka eiga við verði hæf til að vinna með þá miðla sem þá verða til. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)