140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

185. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er af mörgu að taka í því máli sem við ræðum hér. Ég vil benda á nútímavæðingu Þórarins Eldjárns á því mjög merkilega fyrirbæri sem heitir Hávamál, en hann hefur nýverið umskrifað kvæðið á nútímaíslensku fyrir nútímafólk sem þekkir ekki til gamla málsins. Hávamál eru einhver merkilegustu ljóð og merkilegasta heimspeki sem skrifuð hefur verið að mínu viti og það er ómetanlegur fjársjóður að geta leitað í þau.

Hvað varðar stjórnarskrána og kennslu á henni í skólum sé ég fyrir mér, án þess að ég sé hér með smásmugulega skipulagningu á námskrám, að heimspekin yrði að sjálfsögðu fléttuð inn í lífsleiknina á grunnskólastiginu. Það ætti náttúrlega að vera hluti af námi í hvaða grunnskóla sem er að læra um stjórnarskrá landsins og heimspekina sem býr að baki henni. Heimspekin fléttast því víða inn í og þess vegna finnst mér mikilvægt að hún sé gerð að skyldufagi á báðum þessum skólastigum vegna þess að hún er í rauninni alls staðar en fólk veit kannski ekki almennilega af henni fyrr en því er bent á hana. Með því að gera heimspekina að skyldufagi áttar fólk sig betur á því að yfirleitt er einhvers konar gagnrýnin hugsun á bak við allt sem það lærir. Og það er mjög nauðsynlegt að fólk átti sig fljótt á því á lífsleiðinni að það er betra að setjast niður og hugsa gagnrýnið um hlutina áður en maður lætur þá frá sér. Þessi tillaga hjálpar fólki vonandi til að gera það.