140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

185. mál
[16:50]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég ætla aðeins að fá að blanda mér í umræðuna. Mig langar að spyrja þingmanninn Þór Saari, 1. flutningsmann þessa máls, aðeins nánar út í þetta.

Ég er sammála því að kenna eigi heimspeki í skólum á öllum skólastigum. Ég mundi vilja bæta leikskóla og háskóla inn í tillöguna og gera þessi gömlu, góðu heimspekilegu forspjallsvísindi að skyldunámi allra sem hefja háskólanám. En ég held að hægt sé að kenna heimspeki án þess að kenna gagnrýna hugsun og ég held að hægt sé að kenna ýmislegt annað og gagnrýna hugsun í leiðinni. Ég set því spurningarmerki við það hvort hægt sé að setja samasemmerki á milli þess að kenna heimspeki og að kenna gagnrýna hugsun.

Gagnrýnin hugsun er eitthvað sem ég held að við höfum misst sjónar á í aðdraganda hrunsins, við hættum að spyrja spurninga, við hættum að efast. Gagnrýnin hugsun er forsenda allra raunvísinda og er algjörlega nauðsynlegur hluti þeirra. Mig langar bara að velta þessu hér upp og fá að heyra í þingmanninum, sem ég veit að hefur spáð mikið í þessi mál, hvað honum finnst um þessar pælingar.