140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

185. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að geta svarað þessu því að hér er komið inn á svið sem ég hef mjög mikinn áhuga á. Ég var einmitt á leið í doktorsnám á sviði vísindaheimspeki þegar ég tók þá ákvörðun að flytja heim til Íslands. Vísindaheimspekin er gríðarlega stórt fræðasvið og gríðarlega skemmtilegt og mikilvægt. Þar fjalla menn einfaldlega á heimspekilegan máta um þá aðferðafræði sem notuð er í vísindunum. Vísindin sjálf eru í rauninni ekki heimspeki heldur er hugsunin á bak við þau heimspeki. Ég held að það að kynna vísindaheimspeki fyrir börnum og unglingum sé eitthvað sem þeim mundi finnast gríðarlega spennandi því að það er ekkert sjálfgefið að ákveðið svar við ákveðinni spurningu sé endilega rétt eða rangt.

Ég tala oft um gagnrýna hugsun en maður ætti kannski fyrst og fremst að segja bara hugsun frekar en gagnrýnin hugsun, því að öll hugsun sem tengist heimspeki er ekki endilega gagnrýnin hugsun. Heimspekin kennir fólki að hugsa. Það uppgötvaði ég þegar ég fór að taka heimspekiáfanga í háskóla á sínum tíma, upplifun mín var sú að ég náði að læra að hugsa um hlutina með allt öðrum hætti en ég hafði gert áður vegna þess að mér hafði ekki verið kennt það. Það held ég að sé ómetanlegt. Ég er ekkert einstakur maður í tilverunni, ég held að svipað eigi við um flestalla; ef fólki er kennt að hugsa opnast einfaldlega fyrir því nýr heimur. Með því er ég ekki að halda fram að allt í heiminum eigi sér stað í einhverju hugsunarleysi, en betri hugsun er alltaf betri en hitt