140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

185. mál
[16:55]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að mörgu leyti sammála þessu. Ég held að þetta viðhorf að heimspeki sé leiðinleg stafi kannski af því að fólk þekkir ekki nægilega mikið til og veit ekki hvað heimspekin spannar fjölbreytta flóru hugsunar. Ég tel einn áfanga í heimspeki annað hvert ár á grunnskólastigi ekki vera of mikið, ég hefði kannski viljað hafa það meira, ég held að það sé ekki svo mikið að börn fái leiða á efninu. Það er búið að þróa ákveðnar kennsluaðferðir til að kenna börnum heimspeki þannig að þær eru til og umsagnir manna eru þær að börnum finnist mjög skemmtilegt að læra heimspeki.

Hvað varðar framhaldsskólastigið er lagður til einn áfangi á hverju ári á framhaldsskólastigi og það tel ég síst of mikið. En þetta veltur náttúrlega svolítið á því að þeir sem hanna kennsluefnið, skipuleggja námskrárnar og kenna efnið séu hugmyndaríkir og færir og vonandi verður það þannig. Það er eitt (Forseti hringir.) af markmiðunum sem við verðum að ná og það er að fá góða kennara.