140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

185. mál
[16:56]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög athyglisverð og ágæt tillaga. Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að við eigum að minnsta kosti að fara ítarlega ofan í það hvort ekki eigi að taka heimspeki upp sem skyldufag.

Sjálfur var ég svo heppinn að í framhaldsskóla tók ég heimspeki sem valfag og lærði hana síðan í háskóla og tók BA-próf í heimspeki og fór svo í meistaranám og hafði ógurlega gaman af þessu. Heimspekin kemur náttúrlega inn á svo margt eins og þingmaðurinn rakti ágætlega áðan, hún er móðir allra fræða og vísinda sem síðar kvísluðust út og urðu til. Ein frægasta íslenska heimspekigrein seinni ára er hin ágæta ritgerð Páls Skúlasonar sem heitir einmitt „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ Það er stærsta ritgerðin hans í fyrra bindi Pælinga, ritgerðarsafnanna tveggja sem Páll tók saman á sínum tíma. Bækurnar eru auðvitað mikið notaðar í heimspekikennslunni hér, bæði í forspjallsvísindunum og inngangskúrsum í heimspekinni. Það er svo margt sem þarna kemur við, hvort sem það er mannleg breytni og siðferði, gagnrýnin hugsun eða allt hitt sem heimspekin tekur til. Ef þetta yrði vel útfært væri örugglega hægt að koma heimspekinni mjög lipurlega inn í námskrána sem skyldufagi, í lífsleikni og kúrsum sem þegar eru kenndir. Hérna eru fyrrverandi skólastjórar og námsfólk sem þekkir þann þátt miklu betur en ég.

Ég held að við eigum að skoða þetta af fullri alvöru af því að ég held að það skipti miklu máli fyrir komandi kynslóðir að efla námið og gera það skemmtilegra, fjölbreyttara og gagnlegra, þó að það sé auðvitað gagnlegt og gott í dag, en allt hefur sinn tíma og allt er sjálfsagt að skoða. Síðan ég lærði heimspeki fyrir að verða 20 árum hef ég að minnsta kosti verið á þeirri skoðun að það hefðu verið mikil forréttindi að fá að læra hana strax í grunnskóla að einhverju leyti, upp að einhverju marki. Ég var svo heppinn að taka heimspeki sem valfag í framhaldsskóla, nánast fyrir tilviljun, annars hefði ég aldrei farið og lært hana í háskóla árum saman eins og ég gerði svo síðar.

Ég fagna því þessari tillögu og hlakka til þegar við í allsherjar- og menntamálanefnd (Forseti hringir.) sendum hana umsagnar og fáum viðbrögð skólasamfélagsins við henni.