140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

185. mál
[17:01]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla. Væntanlega er kveikjan að þessari þingsályktunartillögu 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008, og skýrsla þingmannanefndarinnar sem hér var lögð fram í september 2010.

Ég lýsi því hér yfir að ég er hlynnt þessari þingsályktunartillögu en tek jafnframt undir með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur þar sem hún segir að það þurfi að fara með heimspeki inn í leikskóla og síðan inn í háskóla sem skyldufag. Því miður hafa menn í háskólunum fellt niður heimspekileg forspjallsvísindi. Er það eiginlega nokkuð sérkennileg ákvörðun þar sem það var eini skylduáfangi þeirra sem þangað innrituðust og ekki skráðu sig í heimspeki til að fá að minnsta kosti beina skoðun á því og velta fyrir sér þeirri sjálfsögðu nálgun að heimspeki sé ígrundun þess sem maður fæst við. Mér þykir þetta þarft. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort heimspeki og siðfræði fari endilega saman. Ég tel það ekki endilega vera, ég held að það þurfi að leggja áherslu á siðfræðimennt almennt, ekki síður en heimspekilega nálgun. Ég tel það verðugt verkefni fyrir allt skólasamfélagið, frá leikskóla og til háskóla, að ræða siðfræði og siðferðileg álitamál. Vissulega er hægt að nálgast þau og þau nálgast menn oft í gegnum heimspekina en þau er líka hægt að nálgast á annan hátt.

Hér var samþykkt frumvarp til eflingar kennaramenntunar og ég held að það sé vert fyrir háskólasamfélagið að í endurskoðun á kennaramenntun sé kennsla í heimspeki sem slík tekin þar inn til að undirbúa komandi kennarakynslóðir fyrir að fást við þetta verkefni. Síðan gætum við séð það fyrir okkur þegar fram líða stundir að heimspekin væri sjálfsögð nálgun í fleiri námsgreinum en endilega heimspekinni sjálfri. Hún getur verið nálgun í bókmenntarýni, í málvísindum og á mörgum öðrum sviðum. Ég nefni sérstaklega bókmenntir og málvísindi vegna þess að ég er sjálf menntuð á því sviði. Víða er hægt að beita þessari sjálfsögðu nálgun heimspekinnar en grunninn þarf að kenna til að fólk öðlist þá þekkingu að geta beitt. Ekki er þetta meðfætt.

Fyrir utan að ræða við nemendur eins og kom fram í máli hv. þm. Þórs Saaris hafa þeir sem hafa tekið að sér heimspekikennslu fyrir börn og unglinga ekki bara greint frá því hversu jákvæðir nemendur eru og móttækilegir fyrir verkefninu og fyrir því sem verið er að kynna fyrir þeim, heldur sé óvenjuskemmtilegt að nálgast nemendur á grunn- og framhaldsskólaaldri vegna þess að hugur þeirra er ómótaðri en þeirra sem hefja nám á háskólastigi og eru orðnir fullorðnari.

Ég fagna þessari tillögu og ítreka enn að hún er í skemmtilegu samhengi við þingsályktunartillöguna sem við vorum með hér áðan um ljóðakennslu og söng og er til bóta sem þáttur í endurskoðun á námskrá. Ég mun fylgja þessari þingsályktunartillögu eftir í allsherjar- og menntamálanefnd.