140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

fornleifarannsóknir í Árnesi og við fossinn Búða, norðan Þjórsár.

84. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga lýtur að fornleifarannsóknum í Árnesi og við fossinn Búða, norðan Þjórsár.

Árnessýsla dregur nafn sitt af Árnesi í Gnúpverjahreppi, en deilt er um hvort þar hafi verið þingstaðurinn Árnesþing eða hvort hann hafi verið við fossinn Búða, norðan Þjórsár. Það hefur þó komið mörgum undarlega fyrir sjónir að sýslan hafi verið nefnd eftir þessum óbyggða og hrjóstruga hólma sem Árnes er í dag. Fram til ársins 963 var þar vorþingstaður við Búða fyrir goðorðin þrjú í „Árnesþingsókn“. Eyjan Árnes er stærsta eyja í Þjórsá, nær 10 km². Það er myndarleg eyja. Þarna eru fornminjar sem mikilvægt er að menn kanni til hlítar því að þær tengjast sögunni á margan hátt. Þrjár klettaborgir standa upp úr hrauninu á vestanverðri eynni, Þinghóll sem er stærstur, svo Gálgaklettur og fossinn Búði í efri kvísl Þjórsár. Benda öll þessi örnefni til þinghaldsins, en samt eru ýmsar efasemdir uppi. Í efri kvísl Þjórsár eru Miðhúsahólmi og Þrándarholtshólmi. Margir fleiri hólmar og eyjar eru í Þjórsá.

Full ástæða er til að kanna þessi svæði þar sem greinilega eru fornar minjar í jörðu. Slíkar rannsóknir þarf auðvitað að framkvæma með uppgrefti fornleifafræðinga, bæði í Árnesi og við Búða. Það má með ólíkindum telja að þessum sögustöðum tveimur hafi enginn sómi verið sýndur í tímans rás þrátt fyrir að sýnilegar fornar rústir séu á báðum stöðum. Það er ekki einleikið að láta það viðgangast lengur að gera ekki gangskör að uppgrefti og rannsóknum á þeim fornu sögustöðum sem Árnessýsla dregur nafn sitt af.

Sýsla þessi, Árnessýsla, hýsir einhver mestu hlunnindi og náttúruperlur landsins: Þingvelli, Gullfoss, Geysi og Skálholt, svo að eitthvað sé nefnt. Það er spennandi verkefni að sem fyrst að loknum fornleifarannsóknum verði mannvirki þau sem tengjast þingstað og búðum endurgerð að einhverju leyti. Það er skylda við sögu Íslands og ekki síst sögu Árnessýslu.