140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

grunnskólar.

156. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær góðu viðtökur sem frumvarpið hefur fengið hjá hv. þingmönnum sem talað hafa. Ég vil í því sambandi vekja athygli á því að hv. þingmenn hafa báðir mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum, þekkja þennan málaflokk gríðarlega vel, eru þaulreyndir sveitarstjórnarmenn og vita þess vegna nákvæmlega hvar eldurinn brennur. Eins og fram kom í máli hv. þm. Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur eru dæmi um það í einstökum sveitarfélögum að grunnskólinn taki til sín um 80% af tekjum sveitarfélaganna. Það kemur í veg fyrir að sveitarfélögin hafi svigrúm til einhverrar hagræðingar innan grunnskólans og hefur um leið gríðarlega áhrif á möguleika sveitarfélaganna til að bregðast við breyttum aðstæðum. Nú eru breyttar aðstæður og þá þurfum við að reyna að taka tillit til þeirra.

Þetta snýst ekki bara um það hvort við viljum skerða vikulegan kennslutíma. Ég hygg að við séum öll sammála um að æskilegt væri að kennslutíminn gæti verið óbreyttur, en nú eru aðstæðurnar þær sem við þekkjum og þá þarf að bregðast við því.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að útreikningar sýna að verði það gert sem lagt er til geti það leitt til sparnaðar í rekstri sveitarfélaga upp á einn til einn og hálfan milljarð kr. Ef við kjósum að fara ekki þá leið, ef við viljum hafa lögin óbreytt, þýðir það við óbreyttar aðstæður að sveitarfélögin þurfa að leita sér að einum til einum og hálfum milljarði kr., annaðhvort í auknum tekjum eða með skerðingu á einhverri þjónustu, væntanlega í öllum tilvikum á þjónustu eða tekjum sem eiga uppruna sinn í málaflokkum sem eru skyldir þessum; í tónlistarnámi, skóladagvistun, skólamáltíðum þar sem þær eru við lýði, og þar fram eftir götunum. Það er því ekki um það að ræða að standa vörð um skólastarfið með því að hafa óbreytt kerfi. Við erum einfaldlega að segja að með óbreyttu kerfi ætlum við að setja byrðarnar á herðar þeim sem síst mega við því, þ.e. barnafjölskyldum í landinu.

Ég held að þegar við skoðum hlutina í þessu samhengi gerum okkur grein fyrir því sem við vitum að það eru einmitt barnafjölskyldurnar sem komið hafa hvað verst út úr samdrættinum sem skollið hefur á samfélagi okkar. Höfum við ekki leyfi til þess að líta þannig á að ekki megi hrófla við vikulegum kennslutíma tímabundið eins og við leggjum hér til? Við verðum að þora að horfast í augu við nýjan veruleika. Við höfum með öðrum orðum ekkert val. Það er ekki val fyrir okkur að gera ekki neitt því að það kemur bara niður einhvers staðar annars staðar í rekstri sveitarfélaganna og örugglega þar sem síst skyldi.

Ég tek undir það sem hv. þingmenn sögðu, að sveitarfélögin hefðu sinnt grunnskólaþjónustunni mjög vel. Þegar grunnskólarnir voru færðir yfir til sveitarfélaganna á sínum tíma reyndu menn að reikna út kostnaðinn sem af því hlytist fyrir sveitarfélögin. Ég hef heyrt því haldið fram að ekki hafi verið svo mikill ágreiningur um heildartöluna sem þá var fundin, en það sem gerst hefur er að sveitarfélögin hafa lagt meira fjármagn í rekstur grunnskólanna. Þau hafa sýnt gífurlega mikinn metnað í rekstri grunnskólanna þannig að grunnskólarnir í dag eru einfaldlega dýrari en þeir voru þegar yfirfærslan átti sér stað.

Við sjáum mikinn árangur af því. Það er engin spurning að það hvarflar ekki að nokkrum einasta manni í dag að færa grunnskólaþjónustuna aftur til ríkisins. Það yrði skref aftur á bak. Það mundi leiða til þess að grunnskólaþjónustan og grunnskólakennslan yrði lakari en hún er í dag.

Ég fagna þess vegna þeim góðu viðtökum sem frumvarpið hefur fengið frá þessum tveimur hv. þingmönnum sem bæði eru þaulreyndir sveitarstjórnarmenn og þekkja þennan málaflokk þess vegna mjög vel. Ég vænti þess að menn reyni að takast á við málið af alvöru og efnislega þegar það kemur í hv. allsherjar- og menntamálanefnd vegna þess að það er ekki svo að alþingismenn geti vikið sér undan þessu máli. Það er ekki einkamál sveitarfélaganna. Það er ekki einkamál grunnskólanna. Það er mál sem varðar þjóðarhag.