140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

stytting þjóðvegarins milli höfuðborgarsvæðisins og Norðausturlands.

36. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég fagna allri umræðu um þetta mál. Mér finnst eðlilegt að við þingmenn landsins skiptumst á skoðunum um samgöngumál sem eru afar brýn, hvort heldur það eru bættar samgöngur til Vestmannaeyja segi ég af því að hér er staddur hv. þm. Árni Johnsen, sem hefur barist mjög fyrir bættum samgöngum þangað, eða Gunnar Bragi Sveinsson, sem ég veit að berst fyrir bættum samgöngum á Norðvesturlandi.

Þessi þingsályktunartillaga er auðvitað sett fram af góðum hug og eins og ég gat um í fyrri ræðu minni ekki beint sérstaklega gegn Blönduósingum. Það vill svo til að út frá landfræðilegum aðstæðum er þetta arðsamasta styttingarleiðin sem hægt er að fara á sjálfum hringveginum og það vill einfaldlega svo til að hún liggur akkúrat um þetta svæði. Ég hefði að sjálfsögðu flutt aðra tillögu ef þetta hefði verið á öðrum stað á landinu og þess vegna um styttingu leiðarinnar um Eyjafjörð. Það verður hins vegar ekki gert nema með brú yfir þveran Eyjafjörð og ég tel að það sé kannski ekki það sem er arðsamast í dag í vegaframkvæmdum, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson stakk upp á, að þvera Eyjafjörð.

Engu að síður hefur farið fram umræða og það mikil og þroskuð á meðal Akureyringa og Eyfirðinga um það hvernig hægt sé að laga veginn í gegnum Akureyri vegna þess að þar fer fram gríðarlegur þungaflutningur um viðkvæmt miðbæjarsvæði og þar hefur verið rætt um að færa tvöfaldan veg í einfaldan til að hægja á umferð. Þetta umræðuefni er vegna þess að þungaflutningar í miðbæjum eru eðli málsins samkvæmt hættulegir og rýra lífsgæði íbúa, ekki síst barna og mæðra og feðra sem eru á ferð með afkvæmi sín um þau svæði vegna þess að miðbæir eru yfirleitt aðdráttarafl í allri sinni dýrð í hverju plássinu af öðru hér á landi. Nægir að nefna að þessi umræða hefur líka farið fram í Reykjavík vegna olíuflutninga út í Örfirisey um miðbæjarsvæðið. Slík umræða er lifandi alls staðar, ekki bara á Selfossi þar sem menn vilja færa þjóðveginn út fyrir bæinn, ekki bara í Borgarnesi þar sem menn vilja færa þjóðveginn niður að fjarðarströnd, og ekki bara á Akureyri heldur mjög víða á landinu. Nefna má t.d. Egilsstaði líka þar sem þungaflutningar fara í gegnum allan bæinn og rista hann reyndar í kross ef svo má segja vegna þess að vegurinn yfir til Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar eystri liggur þvert á veginn yfir til fjarðanna niður í gegnum Egilsstaðakauptúnið sjálft. Þetta er mjög lifandi umræða.

Ég vil, frú forseti, geta þess að vegir eru að færast í betra horf á landinu. Þeir eru að verða beinni og breiðari. Við sjáum breytingu á vegarstæðinu fyrir botni Hrútafjarðar, þar var þjónustan einfaldlega færð að nýjum vegi, nýr Staðarskáli reis og ef til vill mun nýr og annar skáli rísa þar í landinu við hliðina ef leyfi fæst til þess, sem er víst umdeilt heima í héraði. Við sjáum vegabæturnar á Vestfjörðum þar sem vegurinn yfir í Arnkötludal var vígður nýverið og breytti gífurlega miklu í samgöngumálum Vestfirðinga, um hina svokölluðu Þröskulda, og hefur haft í för með sér lægri flutningskostnað til Ísafjarðar frá Reykjavík sem nemur 8–10%. Það munar um minna, frú forseti, þegar það kostar mann á Þórshöfn að kaupa sér ljósaperur í IKEA á 700 kr. og flutningskostnaðurinn er 2.600 kr. Það munar um minna í flutningskostnaði.

Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga lögð fram. Hún er lögð fram fyrir almenning, fyrir fyrirtækin, fyrir neytendur og þá sem vilja ferðast um landið. Hún er lögð fram í þeirri sannfæringu að á næstu árum muni vegir á Íslandi breytast með einmitt þetta í huga, frú forseti, að þeir verði beinni, keldur og totur verði teknar af á hringveginum um landið, vegir verði annars vegar flutningsleiðir og hins vegar ferðaþjónustuvegir rétt eins og er að gerast víðast hvar í Evrópu þar sem vegum er skipt í tvennt að nokkru leyti; í sjálfar flutningsleiðirnar sem eru þungaflutningavegir og síðan ferðaþjónustuvegi sem tengja þá byggðirnar líka. Auðvitað verðum við að halda áfram að tengja byggðir, það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að það eru beinir hagsmunir af því að byggðirnar tengist vel með tilliti til samgangna og slíkt verður auðvitað áfram. Þarna er um valkost að ræða að velja Svínavatnsleið og hún er möguleg sem gjaldtökuleið af því að áfram verður hægt að velja aðra leið í gegnum Blönduós og auðvitað munu margir fara hana áfram. Ég er sannfærður um að þjónustan mun — ef af þessum vegi verður og þegar, ég er reyndar sannfærður um að hann verður einhvern tíma lagður — að einhverju leyti færast af veginum rétt eins og er að gerast víðar á landinu þar sem vegir eru lagaðir, breikkaðir og gerðir beinni.

Það er rétt hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að auðvitað er það líka gríðarlegt hagsmunamál fyrir íbúa úti á landi sem þurfa að sækja til Reykjavíkur margvíslega þjónustu, og í auknum mæli núna á niðurskurðartímum, að Sundabraut verði lögð. Ég hef oft sagt í þessum ræðustól og víðar þar sem ég hef flutt tölur úti á landi að stytting leiðarinnar um Sundabraut sé sennilega eitt stærsta hagsmunamál íbúa úti á landi, ekki síst þeirra sem þurfa að fara vestur um land og norður í land. Það er með ólíkindum að þurfa að skrölta núverandi leið í gegnum úthverfi og önnur sveitarfélög á leiðinni til Reykjavíkur þegar augljós styttingarmöguleiki blasir við yfir sundin blá. Væri það eflaust einhver fegursta leið sem um getur og vænti ég þess að hæstv. forseti, sitjandi fyrir aftan mig, sé mér algerlega sammála í því efni.

Að þessu sögðu vil ég ítreka það að þessi tillaga er eingöngu sett fram með hagsmuni fyrirtækja, almennings og neytenda í huga. Framtíðin ber það í skauti sér að stytta vegalengdir með öllum ráðum, breikka vegi og gera þá beinni og þetta er liður í þeirri framtíðarsýn.