140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

úttekt á áhrifum Schengen-samstarfsins.

73. mál
[18:49]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur lengi verið skoðun mín, og ég er ekki einn um hana, að Schengen-samstarfið sé ekki æskilegt fyrir Íslendinga. Það má til sanns vegar færa. Að sumu leyti erum við í ágætistengslum í gegnum það varðandi aðgengi fólks að landinu og þá er ég ekki að tala um þá misindishópa sem hefur sýnt sig að koma hingað í gegnum Schengen.

Tillaga þessi miðar að því að gerð sé ítarleg úttekt á hvað það kostar okkur að vera í Schengen. Hvað fáum við í staðinn og hvaða áhrif hefur það á samfélagið að opna þær dyr, galopna þær fyrir ákveðnum möguleikum misindishópa víða innan Schengen-landa. Fyrir fáum árum þekktum við ekki ýmis innbrot og vandræðaathafnir sem nú tíðkast daglega með ránum, ofbeldi og öðru.

Sagt var á sínum tíma: Flott að hafa Schengen, þá þurfum við ekki vegabréf. Menn keyptu hugmyndina af því að þeir nenntu ekki að hafa vegabréf í rassvasanum. En hver og einn einasti Íslendingur sem fer til útlanda er með vegabréf og þarf að stoppa í kannski fimm sekúndur til að sýna vegabréfið.

Við skulum gera hlutlausa úttekt á þessu, ekki bara af embættismönnum heldur líka af hagsmunaaðilum sem flytja farþega til landsins og öðrum, ekki láta ráða hvort lögreglan er í betra sambandi við einhverjar Evrópuþjóðir og búa til kerfi sem hentar þeim en ekki okkur. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að við skoðum þetta til hlítar og tillagan er lögð fram til þess.