140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ESB-styrkir.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað lýst því yfir að þingið hafi tekið ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og Vinstri grænir hafi ekki ráðið því í sjálfu sér. Þá er alltaf horft fram hjá því að Vinstri grænir eiga sæti á Alþingi og greiddu atkvæði með því að hrinda þessu ferli af stað. (Sjútvrh.: Ekki allir.) Þeir eiga aðild að þessari ríkisstjórn og mynda ríkisstjórnarmeirihlutann í landinu og þess vegna skiptir grundvallarmáli að stefna stjórnarmeirihlutans um framhald þessa máls liggi skýr fyrir. Mér finnst enn afar loðið hvernig þetta á að gerast fari svo að ríkisstjórninni takist að ljúka aðildarviðræðunum. Hyggjast Vinstri grænir sem sagt eiga aðild að þjóðaratkvæðagreiðslu og fylgja síðan niðurstöðu hennar með atkvæði sínu í þinginu eða ætla menn að fylgja sannfæringu sinni og í langflestum tilvikum stefnu síns flokks eins og sumir kalla fram í og (Forseti hringir.) benda á að þeir hafi gert? Þetta getur ráðið úrslitum um það hvort samningurinn hefur þegar upp er staðið, ef hann fæst á þessu kjörtímabili, meiri hluta á þinginu eða ekki. Þess vegna verður að svara þessari spurningu.