140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

raforkumál á Vestfjörðum.

[10:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða við hæstv. iðnaðarráðherra sem ráðherra byggðamála og orkuflutninga í landinu. Við sjáum af fréttum og viðtölum sem birst hafa í fjölmiðlum á Vestfjörðum, t.d. í Bæjarins besta, að þar eru íbúar og sveitarstjórnarmenn hreinlega búnir að gefast upp á aðgerðaleysi stjórnvalda.

Í viðtali við bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar kemur fram að öllu fögru hafi verið lofað en síðan kemur fjárlagafrumvarpið fram þar sem á að skera niður í heilbrigðismálum. Það er ekki talað um húsnæðiskostnað eða samgöngur, og Háskólasetur Vestfjarða á líka að skera niður samkvæmt þessari frétt í BB. Það sem kallað er eftir er byggðastefna. Hvað er að marka orð ríkisstjórnarinnar sem fór eins og ferðasirkus um landið og lofaði öllu fögru, ekki síst á Vestfjörðum? Ætlar ríkisstjórnin virkilega að standa við fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út í dag gagnvart byggð á Vestfjörðum?

Annað þessu tengt er raforkuöryggi á Vestfjörðum. Það kemur orðrétt fram í viðtali við forstjóra Landsnets sem vitnað er í í grein á BB að gera þurfi annað tveggja, með leyfi forseta:

„Að byggja línu inn á svæðið eða fara út í önnur verkefni eins og að byggja dísilrafstöð, sem er mun hagkvæmari kostur. Að byggja nýja línu er mjög dýrt þannig að það er ekki raunverulegur kostur þegar aðrir kostir eru í boði.“

Er ráðherra raforkumála á landinu sammála forstjóra Landsnets um að Vestfirðingar og Ísfirðingar eigi að búa við dísilrafmagn, búa við það að keyra fyrirtækin á dísilorkustöðvum eins og mér skilst að til dæmis rækjuverksmiðjan Kampur þurfi að gera í dag? Er ekki kominn tími til að ríkisvaldið og ríkisstjórnin láti til sín taka og tryggi að farið verði í að byggja upp varanlega línu um Vestfirði þannig að hægt sé að tengja og breyta þá um leið raforkulögum (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að tengja til dæmis Hvalárvirkjun inn á kerfið?