140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

raforkumál á Vestfjörðum.

[10:46]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vona að við hv. þingmaður fáum tækifæri til að ræða þetta mál frekar og síðar en það sem hann nefndi í upphafi ræðu sinnar áðan er líka töluvert áhyggjuefni að mínu mati. Það er alveg hárrétt að við rekum ekki nægilega öfluga byggðastefnu. Mér hefur til dæmis þótt áhugaverður málflutningur, og umfjöllun í þessu efni, nýskipaðs formanns stjórnar Byggðastofnunar, Þórodds Bjarnasonar, sem jafnframt er fræðimaður við Háskólann á Akureyri. Ætlan okkar er að taka þannig á þessu máli að við fáum heildstæðari sýn á málefni byggðanna í landinu en hingað til hefur verið, t.d. hvað það eru skýrir múrar á milli ráðuneyta. Það er að mínu mati ákveðin hindrun í því að við getum markað hér öfluga byggðastefnu. Við þurfum að vinna betur þvert á ráðuneytin og það er okkar markmið í allri vinnunni fram undan.

Hluti af markmiðunum með því að gera breytingar á lögum um Stjórnarráðið nýverið var líka að skapa sveigjanleika til að betur verði unnið þvert á ráðuneyti (Forseti hringir.) þannig að slagkrafturinn frá þeim verði meiri þegar á heildina er litið.