140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

skuldastaða heimilanna.

[10:47]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Samkvæmt niðurstöðu lífskjararannsóknar Hagstofunnar nýverið eiga 51,5% heimila erfitt með að ná endum saman og 40% heimila treysta sér ekki um þessar mundir til að mæta óvæntum útgjöldum upp á 160 þús. kr.

Til viðbótar hefur komið fram í niðurstöðu eftirlitsnefndar vegna skuldavanda heimilanna, nefndar sem sett var á laggirnar á vegum Alþingis, að sú leið sem boðuð var og hefur verið farið eftir í úrlausn skuldavanda heimilanna, svokölluð 110-% leið, virðist ekki hafa náð þeim markmiðum sem að var stefnt. Verulegur munur er á því hvernig einstaka fjármálastofnanir taka á þeirri leið. Enn fremur er það niðurstaða skýrslu eftirlitsnefndar, sem er um margt mjög áhugaverð og þyrfti að fá miklu meiri umfjöllun í þinginu, að sú sérstaka skuldaaðlögun sem líka var sett á laggirnar hafi ekki dugað með þeim hætti og ekki náð heldur markmiðum með þeim hætti sem ráð var fyrir gert.

Það er alveg augljóst að enn þarf að eiga sér stað verulega mikið átak vegna skuldavanda heimilanna og ég held að það sé mjög brýnt þegar við lítum til þess að við þurfum að fá viðspyrnu í landinu að heimili fái þá aðstoð sem þau þurfa. Mig langar hreint og beint að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þau úrræði sem ég var að lýsa hafi náð þeim markmiðum sem að var stefnt eða hvort hæstv. ráðherra telji að betur þurfi að gera í þessum málum og hvað hæstv. ráðherra telji helst að þurfi að taka til athugunar.

Þá spyr ég sérstaklega hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki nauðsynlegt að fá fjármálafyrirtækin til að samræma það hvernig þau fari í þessa 110%-leið þar sem sum fyrirtæki virðast miða við markaðsvirði fasteignar en önnur við fasteignamat.