140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

skuldastaða heimilanna.

[10:53]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur létt á skuldastöðu heimilanna og það á ekki að horfa fram hjá því. Þegar ég gagnrýni loftfimleika af hálfu Sjálfstæðisflokksins er ég að gagnrýna að sá stjórnmálaflokkur sem hefur skipulega barist gegn öllum félagslegum lausnum í húsnæðismálum á undanförnum áratugum skuli láta sér detta í hug að koma fram með hugmyndir um að menn geti skilað lyklum að íbúðum. (Gripið fram í.) Slíkt kerfi grefur undan möguleikum meðaltekjufólks og lágtekjufólks til að eignast eigið húsnæði. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Slíkt kerfi eyðileggur séreignarstefnuna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til viljað berjast fyrir með kjafti og klóm. (Gripið fram í.) Ekkert sýnir betur þann mikla hugmyndavanda sem Sjálfstæðisflokkurinn er núna í og þetta er augljóst dæmi um þá forustukreppu sem Sjálfstæðisflokkurinn er í. (ÓN: Svaraðu spurningunni.) Menn hlaupa á eftir einhverjum (Gripið fram í.) kanínum sem þeir geta dregið upp úr hatti (Gripið fram í.) til að reyna að komast hjá því að svara grundvallarspurningum (Gripið fram í.) um stefnu sína.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumönnum hljóð.)