140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

svört atvinnustarfsemi.

[11:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra fer þá leið í þessu andsvari að stinga höfðinu í steininn og bendir á eldgamlar tölur frá árinu 2004. Ég var að spyrja um nútíðina og framtíðina, frú forseti, en ekki það hvernig málum var háttað fyrir nánast heilum áratug. Svörin sem hann gefur eru þau sem allt gengur út á á Íslandi í dag, að efla eftirlitsiðnaðinn. Eftirlitsiðnaðurinn skal efldur í stað þess að taka á vandamálinu og grunninum. Eftirlitsiðnaðurinn ætti raunverulega ekki rétt á sér hér á landi ef málin væru í lagi. Þetta er ekki í lagi, hæstv. fjármálaráðherra, og ég spyr því í lokin: Hvernig ætlar hæstv. fjármálaráðherra að fara eftir ályktunum flokks síns frá síðustu helgi þar sem Vinstri grænir höfnuðu frekari niðurskurði í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) þegar ljóst er að 14 milljarðar liggja úti í samfélaginu í skattsvikum?