140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var athyglisvert að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra fara yfir það sem hann talar oftast um sem breytingar á tekjuhlið en ég vil bara nefna sínu rétta nafni, skattahækkanir. Hann fann það út að þegar allt væri tekið hefði þetta sennilega bara jákvæð áhrif á tekjur heimilanna. Mér er algjörlega fyrirmunað að sjá hvernig það getur passað.

Hann gerði mikið úr því að þetta væri miklu minna að umfangi nú en áður, en ég bendi hæstv. fjármálaráðherra á að þær skattahækkanir sem hann boðar hér koma ofan á aðrar skattahækkanir fyrri ára og minnkandi tekjur fólks þannig að ég get ekki séð þetta orsakasamhengi.

Fram hefur komið að allir sem eru með hærri tekjur en 217 þús. kr. á mánuði greiða samkvæmt þessu hærri skatta og fá á sig skattahækkanir. Hvernig í ósköpunum, svo að ég biðji hæstv. fjármálaráðherra bara að tala mannamál, (Forseti hringir.) getur þetta haft jákvæð áhrif á tekjur heimilanna?