140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég minni á að ekki er verið að hækka bensíngjöld, áfengis- og tóbaksgjöld o.s.frv., ekki raunhækka þau. (Gripið fram í.) Verið er að tryggja að þau fylgi verðlagi. Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að við höfum almennt efni á því við núverandi aðstæður að tekjustofnar fylgi ekki verðlagi, að við getum gefið eftir tekjur með því að færa ekki upp til verðlags gjöld af þessu tagi? (Gripið fram í.) Við komum sérstaklega til móts við hátt bensín- og olíuverð og mætum kolefnisgjaldshækkuninni með því að hækka einungis um 2,5% þar.

Varðandi séreignarsparnaðinn get ég fúslega viðurkennt að ég hef ekki sérstaka ánægju af að leggja til þær breytingar. En það er niðurstaða okkar að þetta sé þrátt fyrir allt skynsamleg leið, ríkið sé ekki í færum til að leggja fram skattfrjálsa hvatningu til svo mikils sparnaðar einmitt þessi árin meðan erfiðast er, (Forseti hringir.) og það sé gott efnahagslega að fá þessa fjármuni í umferð. (Gripið fram í.) Fólk getur að sjálfsögðu eftir sem áður sparað á öðru formi en þessu. Við leggjum aðgerðina upp sem tímabundna aðgerð og þetta er mildara (Forseti hringir.) inngrip í lífeyrissjóðakerfið en hugmyndir Sjálfstæðisflokksins, svo mikið er víst.