140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta hringl fram og til baka sem eyðileggur alla samfellu í þjóðfélaginu. Þegar fólk er búið að gera áætlanir um það að leggja fyrir 4% af launum aukalega í séreignarsparnað og svo þarf það að hætta því og fara niður í 2%, tilkynna það og öll skriffinnskan í kringum það, og síðan eftir þrjú ár að fara aftur að hækka upp í 4%. Menn gera það bara hreinlega ekki. Nú er það þannig að innlendur sparnaður er mjög lítill hér á Íslandi, innlendur, frjáls sparnaður heimilanna er mjög lítill á Íslandi, og mætti vera miklu meiri. Þetta er hrein atlaga að því að menn spari. Eftir nokkur ár munu Íslendingar lenda í því að þurfa á sparifé að halda til að geta tekið lán og mér finnst þetta vera mikil atlaga að því.

En mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi komið til tals að hækka ekki þessa nefskatta, þ.e. útvarpsgjaldið og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er einn ósanngjarnasti og ófélagslegasti skattur sem til er og ég hélt nú að félagshyggjustjórnin mundi ekki hækka hann.