140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:52]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka ráðherra fyrir hans góða starf á undanförnum árum enda sýnir það sig best í því hversu lítill að umfangi þessi bandormur er. Hann ræddi aðeins um veiðigjald og mig langar að beina athygli hans að því sem ég tel ónýtt dauðafæri sem gafst þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákvað að fara ekki skötuselsleiðina við útdeilingu á makrílkvóta. Ef hann hefði farið leið Færeyinga, sem leituðu tilboða í ónýttan kvóta, værum við hér staddir með væntanlega 6–7 milljörðum meiri fjármuni í ríkissjóði en ella. Tilboðsleiðin hefur einnig þann kost í för með sér að útgerðin sjálf gerir tilboð í magnið og þar af leiðandi erum við fullkomlega vissir um að við séum að ná í þá arðsemi sem gefst af nýtingu auðlindarinnar en veiðigjaldið er ríkið á hinn bóginn að ákveða út frá einhverjum tölum og gögnum um hversu mikinn hlut útgerðin á að greiða inn. Tilboðsleiðin er þannig í sjálfu sér miklu hagkvæmari leið fyrir alla aðila til að átta sig á því hver arðsemi auðlindarinnar er. Hefði ekki verið (Forseti hringir.) rétt að sækja þessa fjármuni og tryggja þá inn í þá fjárlagavinnu sem fram undan er?