140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það þannig með þessa tegund að við erum náttúrlega ekki búin að kvótasetja hana og þetta hefur þróast mjög hratt, allt frá því að þetta voru frjálsar veiðar þangað til að ég sem sjávarútvegsráðherra, tímabundið í nokkra mánuði, setti í fyrsta skipti þak á veiðarnar til að við værum ekki berskjölduð fyrir þeirri gagnrýni að við stunduðum botnlausa rányrkju á þessum stofni. Síðan hafa gilt sérreglur um meðferðina bæði árin 2010 og 2011. Auðvitað hefðu ýmsar leiðir komið til greina þrátt fyrir að tegundin hafi ekki verið kvótasett, það hefði verið hægt að bjóða út í skömmtum einhvern hluta þess sem við leyfðum veiði á, það hefði vissulega verið hægt, fara einhvers konar færeyska leið í þeim efnum. Ég bendi á að það er auðvitað líka hægt að fara ofan í grunn veiðigjaldsins sjálfs og skoða afkomu einstakra greina. Ég held að þess þurfi hvort sem er, að endurskilgreina það og dreifa greiðslubyrðinni af veiðigjaldinu í betra samræmi við raunverulega afkomu. Þá mundu menn auðvitað sjá hina góðu afkomu sem gjöful makrílvertíð hefur gefið að uppistöðu til (Forseti hringir.) uppsjávarveiði- og vinnslufyrirtækjunum. Þau geta þá á grunni þess borgað ríflegan hlut í veiðigjaldinu.