140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að við höfum gert það, tekið til málefnalegrar skoðunar það sem hefur verið málefnalega fram borið. Sá sem hér talar er ekki mjög næmur fyrir ómálefnalegum kórsöng um að engar ráðstafanir megi gera til að stöðva tekjufallið sem var gríðarlegt hjá ríkinu í kjölfar hrunsins. Hvar værum við á vegi stödd ef við hefðum ekki farið í neinar ráðstafanir til þess, að verja a.m.k. tekjurnar á einhverju tilteknu óbreyttu bili sem hlutfall af þjóðarframleiðslu? Og það er allt og sumt sem hefur tekist. Í reynd er það þannig að við erum rétt rúmlega að halda sjó með tekjurnar sem tiltölulega lágt hlutfall af landsframleiðslu og miklu lægra hlutfall en það var á árunum fyrir hrun. Við erum í nágrenni við 30% núna en vorum kannski 34–35% þegar mest var á þeim tíma þegar gríðarlega miklar froðutekjur flæddu inn til ríkisins. Í grunninn hefur það verið algerlega óumflýjanlegur hluti af ráðstöfunum og aðgerðum til að ná tökum á vanda ríkisins og hallarekstri að stöðva tekjufallið. Víðtækar ráðstafanir hafa auðvitað verið gerðar til þess og að uppistöðu til hafa þær heppnast vel.

Þegar kemur svo að tæknilegri útfærslu og framkvæmd einstakra þátta eiga menn að sjálfsögðu alltaf að vera fordómalausir gagnvart því að skoða það og það tel ég að við höfum verið. Skattkerfið í það heila tekið hefur tekið miklum framförum frá því sem það var. Það hefur óumdeilanlega skilað mun meiri tekjujöfnun. Tekist hefur að verja tekjulægri hópa miklu betur en hina tekjuhærri eða öllu heldur færa byrðarnar þangað og það var akkúrat það sem til stóð.

Ég dreg ekkert í land með það að heildaráhrifin af þessum breytingum núna eru á jákvæðu hliðina. Ég kannast ekki við aðrar tölur ef við skoðum það þröngt gagnvart heimilunum sérstaklega, ég held að það segi sig nokkuð sjálft. En við erum vissulega að fara síðan í sértæka tekjuöflun eins og með fjársýsluskattinn og eftir atvikum hækkun veiðigjalds og það er ekki heldur verið að fela það. Þar er til viðbótar um sértækar tekjujöfnunaraðgerðir að ræða.