140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:21]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að eiga orðaskipti við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson um það sem Sjálfstæðisflokkurinn kallar skattpíningu. Ástæðan fyrir því að ég hef áhuga á að ræða þær yfirlýsingar um skattpíningu við hv. þingmann er fyrirlestur sem ég hlustaði á hjá prófessor Torben Andersen, sem kom hingað á vegum BSRB, en hann hefur ástundað rannsóknir á velferðarkerfum í áratugi. Hann benti á að samkvæmt rannsóknum væru engin tengsl milli hárra skatta og atvinnuþátttöku. Með öðrum orðum, atvinnuþátttaka á Norðurlöndunum þar sem skattar eru allt að því í 50%, þá er ég að vísa til tekjuskatta, er ekki minni en í Bandaríkjunum þar sem tekjuskattar eru 25%. Hins vegar má leiða rök að því að háir skattar dragi úr atvinnuþátttöku jaðarhópa, þeirra sem ungir eru og þeirra sem eldri eru, þar sem atvinnuþátttaka slíkra hópa er hærri í Bandaríkjunum.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta stangist ekki á við fullyrðingar Sjálfstæðisflokksins um að skattahækkanir hér eftir hrun hafi leitt til skattpíningar og líka ýtt undir svarta hagkerfið. En þess má geta að svarta hagkerfið er miklu stærra í löndum sem eru lágskattalönd, t.d. í Suður-Evrópu, en í háskattalöndum í Norður-Evrópu.