140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Aðeins örfá orð af minni hálfu. Ég þakka fyrir umræðuna sem var málefnaleg og góð og vænti góðs samstarfs við hv. nefnd um að vinna þetta mál og að það fái farsæla afgreiðslu. Að því marki sem það tengist beint forsendum fjárlaganna stendur metnaður okkar til þess að reyna að tryggja að forsendurnar standist, bæði varðandi tekjuöflunaraðgerðir og sértækar tekjuöflunaraðgerðir sem og þær sparnaðaraðgerðir sem tengjast forsendum fjárlagafrumvarpsins; upp á 6,6 milljarða beinar aðgerðir í formi almenns aðhalds á rekstur, 3% á almennan rekstur og 1,5% á velferð og einnig sértækar ráðstafanir. Saman myndar þetta ákveðinn grunn sem ég veit að hv. þingmönnum er öllum ljóst að er hluti af þeirri ríkisfjármálaáætlun sem við vinnum núna samkvæmt og miðar að tilteknum markmiðum í þeim efnum. Hér er auðvitað á ferðinni mun umfangsminni aðgerðir en ráðist hefur verið í undanfarin tvö og reyndar tvö og hálft skipti (Gripið fram í: Guði sé lof.) og eru vonandi að mestu leyti þær síðustu sem þarf að ráðast í af þessu tagi. Til dæmis er ekki gert ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætlun að frekari ráðstafanir á tekjuhlið þurfi frá og með árinu 2012. Áfram verður að sjálfsögðu um aðhald að ræða á útgjaldahliðinni, en miðað við þær spár sem við höfum nú fyrir framan okkur á dæmið að ganga upp. Þá er um leið sagt að ef frávik verður frá þessu, ef einhverjar tekjur falla fyrir borð, þarf mótvægisaðgerðir ef áætlunin á ekki að raskast.

Varðandi forsendur fjárlaganna og hagspár og hvernig horfurnar eru, þekkjum við þá umræðu. Aldrei er nákvæmlega á vísan að róa og við getum ekki mikið annað gert en að notast við nýjustu og bestu spár sem við höfum í höndunum og eðlilegt að menn ræði um hversu traustar forsendur þeirra eru. Ég hygg þó að langmesta óvissan í þessum efnum núna sé þróun efnahagsmála í viðskiptalöndum okkar og almennt í heiminum. Vissulega hefur maður áhyggjur af ýmsum fréttum þaðan þessa dagana og klukkustundirnar, en við Íslendingar getum lítið annað gert en að halda vel utan um okkar og búa okkur sem best undir hvað eina sem kann að gerast. Tímabundið getum við sæmilega við unað að mínu mati, að vera þó með þær hagvaxtarspár sem núna liggja fyrir um að hagvöxtur hér á þessu ári verði með því mesta sem gerist innan OECD. Horfurnar á næsta ári eru satt best að segja betri en fjölmörg lönd standa frammi fyrir núna. Hið stóra áhyggjuefni er lítill bati og jafnvel nánast kyrrstaða í mikilvægum hagkerfum sem við erum háð í gegnum utanríkisverslun okkar og viðskipti. Ánægjulegt er þó að sjá að breytingarnar í nýrri hagspá Seðlabankans ganga m.a. út á aukinn kraft eða heldur þróttmeiri útflutningsstarfsemi en menn höfðu áður spáð. Það er sannarlega fagnaðarefni að í hagvaxtarspánni er nú meira byggt á þeirri hlið en minna á því að einkaneyslan sé að drífa hagvöxtinn. Að sjálfsögðu eru forsendurnar traustari ef þróttmikil útflutnings- og samkeppnisstarfsemi ber uppi hagvöxtinn.

Ég þakka þessa umræðu og sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta.