140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:55]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Það eru vonbrigði að ekki sé búið að ráðast í vinnu við að skoða þennan mögulega skattstofn vegna þess að við stöndum frammi fyrir því að þurfa að skera niður í grunnþjónustu velferðarkerfisins. Auk þess hafa þessi útflutningsfyrirtæki nú notið hvalrekahagnaðar í þrjú ár frá hruni. Mér er kunnugt um að þau hafi átt mjög erfitt á tímum veikrar krónu og eiginlega má segja að fyrstu tvö árin eftir hrun að minnsta kosti hafi verið tímabil sem bætti þeim upp erfiða rekstrarstöðu fyrir hrun. Skattur á hvalrekahagnað er auðvitað tímabundinn og verður bæði lækkaður og tekinn af um leið og gengi krónunnar fer að hækka.

Þess má geta að skattur af hvalrekahagnaði útflutningsfyrirtækja var lagður á í Argentínu. Hann er talinn hafa komið í veg fyrir fjöldauppsagnir hjá ríkinu, fjöldauppsagnir á störfum sem áttu rétt á sér en meðal annars vegna kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um jöfnuð í ríkisrekstri. Þessi skattur á hvalrekahagnað kom í veg fyrir þær fjöldauppsagnir. Ég hef ekki rekist á neina gagnrýni á þennan skatt. Þess vegna kemur það mjög á óvart að ekki sé verið að skoða hann hér á landi. Auk þess hef ég áhyggjur af því að það sé fyrst og fremst sjávarútvegurinn sem (Forseti hringir.) eigi að bæta ríkinu upp of lítinn skattstofn.