140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[13:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að við höfum verið að gera það, að minnsta kosti sá sem hér talar. Ég tel að lífeyrissjóðakerfið og sá uppsafnaði auður sem við eigum í því sé einn af helstu styrkleikum íslensks efnahagslífs. Í mínum huga hefur aldrei leikið vafi á því að það var gæfuspor að fara inn á þá braut á sínum tíma, um 1970, að hefja uppsöfnun lífeyrisréttinda í sjóðskerfi. Sem betur fer hefur kerfið staðið furðanlega í lappirnar í gegnum hrunið og þó að eignir þess hafi rýrnað tímabundið eru þær aftur komnar á svipaðar slóðir og þær voru fyrir hrunið og reyndar heldur betur en það. (PHB: Ekki í Evrópu.)

Að sjálfsögðu er sambúð hinna ólíku kerfa risastórt mál sem allir hafa gert sér grein fyrir að stefna þarf að einhverri lausn á til framtíðar litið. Menn hrista það ekki fram úr erminni. Af því er verið að vinna. Sá vandi er auðvitað tvíþættur, annars vegar A-deildin og sambærilegir sjóðir hjá sveitarfélögum o.s.frv. A-deildin á að vera sjálfbær og standa undir sér en þarf breytinga við því hún er það ekki alveg í dag. Hins vegar er það hinn mikli geymdi vandi frá fortíðinni í B-deildinni sem við þurfum að búa okkur undir að takast á við. Það verður ekki gert öðruvísi en með eingreiðslum frá ríkinu á alllöngu árabili. Því miður varð lítið úr efndum á því að fara af stað með eingreiðslurnar upp úr aldamótunum. Svolítið var borgað inn á reikninginn fyrstu árin en síðan var því meira og minna hætt þrátt fyrir gríðarlegan afgang á ríkissjóði síðustu árin fyrir hrunið. Reikningurinn er þannig stærri en hann að mínu mati hefði þurft að vera ef menn hefðu haldið sig við það sem upphaflega var lagt upp með, að borga jafnt og þétt inn á þennan framtíðarreikning.

Þetta breytir hverfandi litlu í stóra samhenginu, það er alveg ljóst. Náist það fram að stefna að einu einsleitu og sjálfbæru kerfi (Forseti hringir.) með svipuðum réttindum, jafnvel einum lífeyrissjóði eða að minnsta kosti sjálfbæru kerfi, kemur þetta inn í þá mynd rétt eins og allt annað sem varðar rekstrarkostnað sjóðanna á móti réttindunum sem þeir hafa efni á að greiða.