140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að fara að gefa frumvörpum hæstv. ráðherra einkunn, en hér er verið að hækka launakostnað bankanna. Hækkunin verður samtals 18,24% ef hugmyndir manna um breytingu á tryggingagjaldinu verða að veruleika. Þá eru 18,24% borguð af launum til ríkisins, hreinn launaskattur, hreinn skattur á atvinnu. Hvernig munu bankarnir bregðast við? Þeir munu væntanlega bregðast við með því annaðhvort að lækka laun hjá þeim sem hafa nokkuð há laun í bönkunum, útvista eins og áður var nefnt, segja upp fólki sem þeir komast af án eða með því að hagræða og draga saman. Sumir hafa sagt að bankakerfið sé nokkuð yfirmannað. Hættan er sú að fólki sem er með tiltölulega góðar tekjur verði sagt upp. Það fólk greiðir þá ekki lengur skatt af þeim tekjum til ríkisins. Þær skatttekjur eru ekki óverulegar. Ég hugsa að ríkissjóður muni tapa á því þar sem áhrifin verða þessi, hann fær meiri tekjur í dag út á þessi laun og þessar tekjur en hann fær af fjársýsluskattinum.

Margir hafa sagt að bankakerfið sé ofvaxið, of stórt. Þeir sem missa vinnuna fara þá annaðhvort til útlanda og borga aldrei skatta framar á Íslandi, þá held ég að sé alveg einboðið hvert tekjutap ríkissjóðs yrði, eða þeir fara á atvinnuleysisbætur. Þá borga þeir reyndar skatt á Íslandi, virðisaukaskatt og annað slíkt, en fjármagna hann með bótum frá ríkinu. Ég held að nú þurfi að skoða öll þessi mál til hlítar.

Svo er annar þáttur sem kannski má skoða. Við göngum mjög nákvæma línu í því hversu mikið má lesta bankana vegna þess að þeir eru í eigu kröfuhafa sem töpuðu ómældu fé á Íslandi og þótti það ekki gaman. Ef á einhvern máta er gengið of nærri þessum bönkum sem eru eign kröfuhafanna munu þeir hugsanlega fara í skaðabótamál við íslenska ríkið. Mér sýnist reyndar af rökstuðningi við frumvarpið að það sé sambærilegt við það sem er í Danmörku þannig að hægt sé að vísa í að lög af þessu tagi séu til annars staðar. Það er mjög mikilvægt. En menn þurfa að fara mjög varlega og passa sig á að ganga ekki of nærri þessari eign kröfuhafanna vegna þess að bankarnir voru með safaríka afskriftasjóði og kröfuhafarnir sættu sig við þá af því að þeir áttu sjálfir bankana. Ef það hefði verið öðruvísi hefðu orðið áratugadeilur um afskriftasjóðina þar sem kröfuhafarnir hefðu krafist þess að þeir yrðu magrir og litlir. Nú eru þeir sem sagt mjög safaríkir af því að kröfuhafarnir fá það þá inn sem hagnað þar sem þeir sjá á eftir eignum sínum á móti afskriftasjóðunum.

Þess vegna er mjög mikilvægt að menn gæti þess að ganga ekki á rétt þeirra. Þeir eiga sinn eignarrétt og geta farið í mál við íslenska ríkið ef lagðir eru á þá skattar sem ekki eru til annars staðar eða eru á einhvern hátt óvenjulegir. Það sýnist mér að sé ekki tilfellið með þennan skatt. Hins vegar finnst mér að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar þurfi að skoða mjög nákvæmlega hvernig þessi skattur virkar og alveg sérstaklega hvað varðar lífeyrissjóðina. Hæstv. ráðherra sagði að það skipti litlu máli eða engu, þetta væri bara smáræði, bæði tekjur ríkissjóðs og eins álagning á þá. Þá held ég að rétt sé að sleppa þeim við þessa skattlagningu. Ég held að nefndin ætti að leggja það til vegna þess að eins og ég hef margoft sagt þurfa menn að vera mjög varkárir í því að skattleggja lífeyrissjóðina á nokkurn máta. Stór hluti þeirra, þ.e. opinberu sjóðirnir, LSR og sjóðir sveitarfélaganna, bera í rauninni ekki þennan skatt. Það eru útsvarsgreiðendur eða skattgreiðendur í gegnum ríkið sem bera skattinn, en hinir sem eru í almennu sjóðunum þurfa að mæta skattinum með skerðingu á réttindum sínum jafnframt því sem þeir borga skattinn til hinna lífeyrissjóðanna. Það er svo óréttlátt að það tekur ekki tárum. Ég legg til að menn sleppi lífeyrissjóðunum þegar fjallað verður um málið í nefndinni.