140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[15:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að víkja örlítið frá hinu þrönga efni þessarar umræðu í tilefni af orðum hæstv. fjármálaráðherra í lok ræðu hér áðan. Það varðar heildarstefnumótun í skattamálum sem af og til hefur verið nefnd í opinberri umræðu og hér í þingsölum á undanförnum árum, þ.e. að í gangi væri vinna og verið væri að vinna tillögur og skoða málin í heild. Ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvar sú vinna stæði, því að ég verð að játa það að gagnvart okkur hér í þinginu birtist ekki heildarmynd heldur bara svona bútar eins og þetta frumvarp og eins og frumvarpið sem við ræddum hér fyrr í dag og fleiri frumvörp um skattbreytingar sem virðast vera svona einhverjir bútar.

Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort þessir bútar eða þessir kubbar séu partur af einhverri stærri mynd, eða hvort þetta sé eins og það blasir stundum við manni bara dálítið tilviljanakennt hvað það er sem skilar sér í frumvarpsformi hingað inn í þingið.