140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

virðisaukaskattur.

32. mál
[15:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er engin deila um það held ég meðal þeirra sem til þekkja að húshitunarkostnaður á köldum svæðum er tilfinnanlega mikill og reyndar raforkuverð á þeim svæðum sem búa við dreifbýlisgjaldskrár og dreifbýlisflutningsgjaldskrár. Þar af leiðandi er fullgilt að fara yfir hvernig við getum spilað úr takmörkuðum fjármunum sem best til að stuðla að jákvæðri þróun í þessum efnum. Þar er tvímælalaust hitaveituvæðingin mest freistandi þar sem hún er í boði og sem betur fer hefur ýmislegt verið að gerast í þeim efnum og annað í undirbúningi. Það eru a.m.k. tveir stórir þéttbýlisstaðir inni í myndinni varðandi hitaveituvæðingu; þeir eru Skagaströnd og Höfn og Eskifjörður er nýlega kominn með hitaveitu. Eftir því sem fleiri meðalstórir eða stórir þéttbýlisstaðir færast úr rafhitun yfir í hitaveitu fækkar í hópnum sem eftir situr með raforkukyndingu á köldum svæðum og þarf þá minni fjármuni til að jafna betur þann kostnað.

Ríkið leggur sitt af mörkum til hitaveituvæðingarinnar með því að greiða í framkvæmdina sem nemur átta ára ígildi niðurgreiðslunnar á rafhituninni. Það hjálpar geysilega til að kljúfa stofnkostnaðinn og er forsenda þess að mörg af þeim verkefnum eru í skoðun eða hafa náð fram að ganga á undanförnum árum.

Það er margt fleira sem hægt er að grípa til í þessu skyni, þar á meðal að stuðla að endurbótum á eldra húsnæði með betri einangrun og gluggaskiptum og öðru slíku. Reynt hefur verið að greiða götu þess með lánafyrirgreiðslu o.s.frv. Enn aðrir möguleikar eru spennandi eins og kyndingarstöðin á Hallormsstað sem notar trjávið sem fellur til við grisjun og á að geta verið samkeppnisfær búi hún við eðlilegt umhverfi. Það þyrfti að finna leiðir til að hægt væri að útvíkka dreifikerfi frá slíkum stöðvum með sambærilegum stuðningi og þegar um hitaveituvæðingu er að ræða. Fyrir því standa að mínu mati full rök. Þá væri hægt að styrkja uppbyggingu dreifikerfisins með framlagi sem næmi þess vegna hinni sömu átta ára endurgreiðslu áætlaðrar niðurgreiðslu á raforkukyndingu. Menn hafa meira að segja velt vöngum yfir því hvort trjákurl gæti orðið eldsneytisgjafi fyrir sameiginlega orkustöð í Grímsey en það er sennilega framtíðarmúsík.

Ég held að við eigum alls ekki að afskrifa frekari hitaveituvæðingu. Eins og dæmin sanna geta nánast gerst kraftaverk á köldum svæðum, samkvæmt klassískri skilgreiningu, eins og á Eskifirði þegar allt í einu fannst meira en nóg heitt vatn til að hita upp þann myndarlega stað.

Ég er velviljaður því að þetta með varmadælurnar verði skoðað í tilvikum þar sem það er góður kostur ef menn vilja velja hann. Hvort aðferðin yrði þá að endurgreiða virðisaukaskattinn af dælunum og búnaðinum eða einfaldlega að vera með einhvers konar styrkgreiðslur sem væru ígildi þess, en okkur fellur það gjarnan betur í geð í fjármálaráðuneytinu en að fara út í umfangsmikil endurgreiðslukerfi af ýmsum ástæðum. (Gripið fram í.) Mér finnst síður en svo frágangssök að það sé skoðað en ég verð auðvitað að setja þann fyrirvara og minna menn á að við höfum úr takmörkuðum fjármunum að spila þessi missirin. En það er mjög mikilvægt að ná áfram árangri á þessu sviði.

Í raun verður það síður ásættanlegt eftir því sem hópurinn verður fámennari sem býr við þá miklu sérstöðu að vera með tvöfalt eða meira en tvöfalt hærri kyndingarkostnað en aðrir landsmenn þótt auðvitað sé talsvert bil í kostnaðinum frá hagstæðustu hitaveitunum og yfir í þær dýrustu. Það skekkti þennan samanburð að mínu mati að Orkuveita Reykjavíkur og nokkrar aðrar hitaveitur voru með óraunhæft lágverð á töxtum sínum. Það gerði held ég engum greiða að vera nánast með undirverðlagningu því að það er kostnaður sem menn þekkja varla á byggðu bóli í köldu landi að það geti kostað langt innan við 100 þús. kr. að kynda stórt einbýlishús. Það á að horfa til þess að orkan er auðlind sem menn eiga að verðleggja í samræmi við raungildið og nægir þar að reikna út hvað mundi kosta að kynda upp slíkt húsnæði með jarðefnaeldsneyti eða ef menn væru á evrópska orkumarkaðnum og þyrftu yfir kaldasta vetrartímann að kaupa á toppverðunum sem þá eru í gangi þegar kostnaðurinn margfaldast, en hér eru menn með jafnaðarverð o.s.frv.

Mér finnst sem sagt góðra gjalda vert að þetta sé skoðað og þá haft í samhengi við annað sem þarna er undir. Það væri að mínu mati ágætt að fara yfir þetta á nýjan leik. Þetta gæti tengst stefnumótun á sviði orkuskipta og fleiri þátta sem eru í gangi. Við þurfum að hafa heildaryfirsýn yfir þetta, líka til að bregðast við hækkandi eldsneytisverði og orkuverði á komandi árum og áratugum í heiminum. Það er það og ekkert annað sem við þurfum að búa okkur undir. Orkuverð mun almennt verða á uppleið í heiminum og það mun hafa sín áhrif hér heima á Íslandi og á að hafa áhrif, sérstaklega í þeim skilningi að við ætlum okkur arð af orkuauðlindunum í takt við þróun vaxandi verðmætis þessa fyrirbæris í heiminum og þurfum að gera það í samningum okkar við þá sem kaupa af okkur orkuna.

Ég mundi segja að húshitunarkostnaðurinn og orkuverðið á dreifbýlissvæðum ætti að vera sérstakt viðfangsefni. Ég tala nú ekki um þar sem menn búa enn við að kaupa einfasa rafmagn með tilheyrandi óþægindum, meiri stofnkostnaði og lélegri orkunýtingu. Það hallar tvímælalaust á þau svæði. Það er nokkuð sem hefur tekið lengri tíma en gott þykir að bæta þar úr, samanber hversu langan tíma hefur tekið að breyta dreifikerfinu yfir í þriggja fasa rafmagn sem að sjálfsögðu hjálpar í þessum efnum og bætir orkunýtinguna og dregur úr stofnkostnaði við innkaup á mótorum. Svo finnst mér gild rök standa til að jafna íbúðarhúsakyndingu sem hluta af nauðsynlegri undirstöðu fyrir fjölskyldur í landinu. Það er aldrei gott að slíkir þættir séu mjög ólíkir eftir landshlutum. Það veldur eðlilega óánægju og mismun á lífskjörum sem er erfitt að standa frammi fyrir.

Ég set mig síður en svo upp á móti því að hv. nefnd skoði málið vel en áskil mér rétt til þess að fjármálaráðuneytið fyrir sitt leyti komi sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég held reyndar að ágætt gæti verið að viðkomandi þingnefndir ynnu þetta að einhverju leyti saman, þær sem fara með stefnumótun á þessu sviði almennt og skattalega þáttinn í málinu.