140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

virðisaukaskattur.

32. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta eða árétta mikið það sem ég sagði áðan. Ég stend fyrst og fremst upp til að fagna þeim jákvæðu undirtektum sem hafa komið fram bæði í máli hv. þm. Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur og hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Ég held að viðtökurnar sem þetta mál hefur fengið í þessari knöppu en ágætu umræðu sýni og undirstriki að þetta mál er þannig vaxið að um það á að geta tekist bærileg sátt.

Ég vil aðeins þó segja út af því sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi áðan að ég vara mjög við því að við förum að flækja þessa ákvarðanatöku mikið. Þetta er í raun og veru býsna einfalt mál og sérstakt og það þarf í sjálfu sér ekki að setja það í samhengi við neitt annað. Þetta frumvarp gengur út á það að heimila í fimm ár endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á varmadælu, eða ígildi styrks sem tryggt væri að kæmi. Rökin eru að húshitunarkostnaður er svo mikill að með því að setja varmadælu á húsin er mögulegt að lækka kostnaðinn. Vandinn er hins vegar sá eins og við þekkjum að stofnkostnaður við varmadælurnar er talsverður. Það fælir fólk frá því að fjárfesta í þeim. Fyrir vikið nýta menn sér ekki þá tæknilegu möguleika sem núna hafa opnast okkur sem gerir það að verkum að fólk býr áfram við háan húshitunarkostnað vegna þess að það hugsar með sér að með því að fjárfesta í varmadælu þurfi að leggja út peninga sem það á kannski ekki í handraðanum svona almennt talað og því hikar það við slíka fjárfestingu. Ég tel að það eigi bara að skoða þetta mál eitt og einangrað. Þetta er viðleitni til að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er sárastur. Við eigum ekki að setja þetta í annað of flókið samhengi. Málið er óskaplega einfalt að öllu leyti og allri gerð.

Annað mælir með því að tekin sé afstaða til þessa máls sem fyrst og það er að hér á landi er framleiðsla á þessum varmadælum, auðvitað líka innflutningur. Mér er kunnugt um það að eftir að þetta frumvarp kom fram og hlaut þá miklu umræðu sem ég nefndi áðan að hefði komið mér nokkuð á óvart hefur dregið úr eftirspurn á varmadælum. Menn vilja sjá fyrir endann á því hvort Alþingi samþykkir það að lækka verð á þessum gripum og fyrir vikið er þessi óvissa óheppileg fyrir þann atvinnurekstur sem byggir á því að framleiða varmadælur og þá menn sem setja dælurnar upp og hafa tröllatrú á þessari aðferð. Það er því ákaflega mikilvægt að þingið sé ekki að dvelja mjög lengi við þetta. Málið hefur þegar verið unnið, fyrir liggja umsagnir frá sveitarfélögum, samtökum sveitarfélaga, frá tæknilegum fulltrúum, frá Orkusetrinu sem ég nefndi áðan og hefur sérstaklega mikið skoðað þetta, frá verkfræðingum, frá Verkfræðingafélaginu og þannig gæti ég talið áfram upp. Allir þessir aðilar ljúka upp einum munni og segja: Þetta er mjög gott mál, reynið endilega að koma því áfram.

Ég sagði áðan að það hefði komið dálítið á óvart hversu mikla athygli þetta mál hefði hlotið. Það segir mér að málið er mjög brýnt. Menn sjá í því lausn á mjög sárum og erfiðum vanda. Til gamans má nefna það að hér í þinginu gengur þetta frumvarp undir heitinu stóra varmadælumálið vegna þess að ég hygg að þingmenn, sem hafa fengið slík viðbrögð frá umbjóðendum sínum um allt land, hafi verið nokkuð undrandi yfir því hversu stórt mál þetta er í huga fólks. Það er augljóst af hverju það er svo stórt, það er vegna þess að það tekur á mjög stóru vandamáli sem er við að glíma.

Lokaorð mín verða um það sem ég nefndi áðan, þ.e. þróunina í húshitunarmálum. Ég ætla að setja þetta aðeins í annað samhengi. Ég bar saman húshitunarkostnað hjá Rarik í dreifbýli — af hverju segi ég Rarik í dreifbýli? Það er vegna þess að dreifbýlishluti landsins borgar enn meira en þær byggðir sem eru aðeins fjölmennari og búa samt við háan húshitunarkostnað. Ég bar sem sagt saman húshitunarkostnað húss í dreifbýli hjá Rarik við sams konar hús í Reykjavík. Ef við skoðum árið 2000 á núverandi verðgildi var kostnaðurinn í Reykjavík 100 þús. kr. en 165 þús. kr. hjá Rarik, 65% hærri. Ef við skoðum lægsta verðið í Reykjavík þá var það á árinu 2009 tæpar 72 þús. kr. en 212 þús. kr. tæpar fyrir sams konar hús hjá Rarik, hér um bil þrisvar sinnum hærra. Fyrir tíu árum var það 65% hærra, núna er það nærri því þrefalt hærra. Þetta er þróunin. Við þurfum að spyrna við þessu og þess vegna skiptir máli þótt þetta sé langt því frá að vera hið endanlega skref að það er þó skref og jafnvel hin lengsta ferð, eins og Kínverjarnir segja, hefst með einu skrefi.