140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

skattaívilnanir í þágu tilgreindra félagasamtaka.

107. mál
[15:50]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skattaívilnanir í þágu tilgreindra félagasamtaka. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Birkir Jón Jónsson og Siv Friðleifsdóttir. Við lögðum þetta frumvarp fyrst fram á síðasta löggjafarþingi en náðum ekki að mæla fyrir málinu og því var þess vegna ekki vísað til nefndar.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til skattaívilnanir sem hugsaðar eru í þágu frjálsra félagasamtaka á sviði menningarmála, vísindalegra rannsóknastarfa, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga. Er lagt til að einstaklingi verði heimilt að draga gjafir til slíkra félagasamtaka frá skatti. Einnig er lagt til að slíkum samtökum verði ekki gert að greiða erfðafjárskatt af arfi, gjafaarfi, dánargjöfum og fyrir fram greiddum arfi sem þeim áskotnast.

Við þekkjum flestöll frjáls félagasamtök og höfum örugglega langflest gefið til einhverra og jafnvel tekið þátt í starfi þeirra. Dæmi um frjáls félagasamtök eru Öryrkjabandalag Íslands, Krabbameinsfélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, og öll þau kvenfélög sem standa að því, og Rauði kross Íslands sem daglega starfa í almannaþágu til heilla fyrir okkur öll. Þessi samtök lyfta oft grettistaki og leggja mjög mikið fram við að styðja við samfélagið. Til dæmis tók Kvenfélagasambandið saman þær gjafir sem kvenfélög á landinu höfðu lagt fram til heilbrigðisstofnana og á tíu ára tímabili reiknaðist því til að konurnar þar hefðu gefið allt að 500 millj. kr. fyrir utan Kvenfélagið Hringinn sem við þekkjum flest því að Barnaspítali Hringsins er einmitt kenndur við það kvenfélag.

Sem dæmi um þann mikla stuðning sem Barnaspítalasjóður Hringsins veitti spítalanum árið 2010 og fleiri stofnunum gáfu þær Barnaspítala Hringsins beint skjátölvur, ungbarnavogir og standvogir og þær gáfu fósturgreiningardeild Landspítalans ómskoðunartæki til fósturgreiningar. Kvennadeildin fékk mjaltavél, gulumæli, ungbarnavog, sjónvörp, hægindastóla o.fl. Síðan fékk svæfinga- og gjörgæsludeildin á kvennasviðinu barkaspegil, ómtæki og púlsmetra. Þetta er bara til að nefna nokkur dæmi en alls veittu þær árið 2010 úr Barnaspítalasjóði Hringsins 39,5 millj. kr.

Á vefsíðu Eyjafrétta sem er haldið úti í sveitarfélaginu sem ég bý í er fjallað um þær gjafir sem einstaklingar hafa gefið Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Þeir einstaklingar hafa ásamt Kvenfélaginu Líkn gefið tæki og tól fyrir verðmæti allt að 170 millj. kr. Mig minnir að framkvæmdastjóri stofnunarinnar hafi orðað það þannig að væntanlega væru varla til rúm fyrir sjúklingana ef ekki væri vegna stuðnings frjálsra félagasamtaka og einstaklinga sem vildu leggja stofnuninni lið. Ég tel mjög mikilvægt að við sendum með lagasetningu ákveðin skilaboð út í samfélagið. Efnishyggjan getur verið mjög rík í manninum og þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að í staðinn fyrir að ýta undir hana reynum við að búa til ramma sem hvetur frekar til samhyggju og þess sem mætti kalla jákvæða hegðun af hálfu einstaklinganna. Með því að gera þær breytingar sem eru lagðar til í frumvarpinu tel ég að við hvettum til samstöðu með samfélagi okkar, hvettum til samhjálpar og jafnframt sjálfsábyrgðar á því í hvernig samfélagi við búum.

Þó að efnishyggjan geti verið rík í okkur getur hin hliðin, samhyggjan, líka verið mjög sterk. Það umhverfi sem við höfum búið til hefur kannski dempað þessar hneigðir í manninum. Sem dæmi um að fólk er oft tilbúið að leggja ýmislegt á sig til að hjálpa náunganum má nefna að ferðamönnum í Bandaríkjunum er gjarnt að skilja eftir þjórfé á veitingastöðum þótt þeir hafi aldrei í hyggju að koma aftur á þá staði, við hjálpum ókunnugu fólki við að komast yfir götu og til dæmis fundum við síma á salerni í fríi sem ég fór í nýlega og í staðinn fyrir að stinga honum í vasann reyndum við að koma honum til skila til rétts eiganda. Þetta er mjög ríkt í okkur en skoðun mín er að samfélagið hafi ekki, og ekki Alþingi heldur, verið nægilega öflugt í að styðja við þessa þætti í manninum. Það hefur endurspeglast mjög mikið á undanförnum áratugum að skattaívilnanir stjórnvalda beindust fyrst og fremst að fyrirtækjum á markaði í hagnaðarskyni. Það var tekin ákvörðun þannig að það hallaði sífellt á starfsemi sem rekin var á grundvelli ákveðinna hugsjóna, svo sem frjáls félagasamtök og samvinnufélög. Það má nefna dæmi um afnám ákvæða um frádrátt frá skattskyldum tekjum einstaklinga vegna gjafa til góðgerðarfélaga árið 1979, ákvörðun um að félagasamtök skyldu greiða fjármagnstekjuskatt árið 1996 og álagningu erfðafjárskatts á gjafir til líknarfélaga vorið 2004. Það geta einfaldlega ekki verið rétt skilaboð til samfélagsins frá okkur þingmönnum að það sé hagkvæmara að græða sjálfur en að gefa náunganum, að auðdýrkun og fésýsla sé metin meira en vinnan, þekkingin, framtakið og maðurinn sjálfur.

Frjáls félagasamtök hafa svo sannarlega ekki farið varhluta af kreppunni. Þetta höfum við séð, við sem höfum fylgst með söfnunarátaki í sjónvarpi, og ég hef jafnframt heyrt frá starfsmönnum félagasamtakanna sjálfra að framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum hafi dregist saman. Það er svo sem ekkert óeðlilegt við það þar sem fjárhagsstaða bæði fyrirtækja og heimila hefur verið miklu bágari eftir hrun.

Hið opinbera hefur líka haft minna á milli handanna til að geta stutt við starfsemi félagasamtakanna með beinum styrkjum. Er það eitt af því sem mér hefur þótt mjög leitt að sjá, þ.e. hvernig framlögin frá hinu opinbera hafa dregist saman. Á sama tíma hefur hins vegar álag aukist og þá eftirspurn eftir þjónustu frjálsra félagasamtaka. Þetta heyrði ég til dæmis á svokölluðu kótilettukvöldi hjá Samhjálp sem var einmitt fjáröflunarkvöld vegna starfseminnar. Ég held að á hverri nóttu gisti um 160 einstaklingar á vegum Samhjálpar í gegnum frábæra starfsemina. Á kótilettukvöldinu kom einmitt fram að í súpueldhúsið sem hafði fyrst og fremst verið hugsað fyrir útigöngufólk leitaði núna allt annar hópur sem ætti ekki lengur fyrir mat upp úr miðjum mánuðinum. Ef þessar skattaívilnanir yrðu að raunveruleika í þágu tilgreindra félagasamtaka væri verið að hvetja okkur öll til að leggja þeim lið með því að við fengjum þá sjálf skattaívilnun. Þannig væri líka tryggt að þegar við föllum frá og mundum vilja að hluti af því erfðagóssi sem við skiljum eftir okkur félli til frjálsra félagasamtaka þyrftu þau ekki að borga erfðafjárskatt. Það sem væri kannski einna flóknast í framkvæmd væri að skoða hvernig hægt væri að einfalda virðisaukaskattsgreiðslur hjá þessum samtökum.

Þær upplýsingar sem ég hef eftir að hafa spurst nokkrum sinnum fyrir um málið á síðasta löggjafarþingi er að í vinnslu á vegum efnahags- og viðskiptaráðherra sé löggjöf um mótun rammalöggjafar fyrir góðgerðarsamtök sem við teljum að ættu að eiga rétt á svona skattaívilnunum. Þar væru sett fram ákveðin skilyrði um starfsemina, hvernig væri haldið utan um bókhaldið og raunar þau verkefni sem þess háttar samtök tækju að sér. Þar er væntanlega horft til löggjafarinnar í sambandi við „Charities Act“, þ.e. góðgerðarsamtakalaganna í Bretlandi.

Ég vonast sannarlega til að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra setji þrýsting á að ljúka þessu verkefni þannig að við getum samþykkt þær breytingar sem verið er að leggja til um lög um tekjuskatt og erfðafjárskatt og stutt þannig við þennan mikilvæga geira, þriðja geirann, sem ég held að veiti svo sannarlega ekki af að efla hér á landi.

Að lokinni umræðunni óska ég eftir því að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.