140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

skattaívilnanir í þágu tilgreindra félagasamtaka.

107. mál
[16:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég er komin hingað upp sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd til að fagna þessu frumvarpi. Hér er um afar þarft málefni að ræða og ég er reyndar hissa á því að ekki skuli fleiri nefndarmenn úr efnahags- og viðskiptanefnd sitja hér og taka þátt í þessari umræðu. Það kemur kannski að því þegar málið kemur inn í nefndina og helst út úr nefndinni aftur og inn í þingsal. Þá fæst vonandi almennileg umræða um þetta málefni.

Það væri óskandi að hægt væri að samþykkja frumvarpið og hafa aðstæður þannig að félagasamtök yrðu undanþegin skattskyldu. Ég held að þetta eigi ekki að þýða mikinn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð vegna þess að ef frjáls félagasamtök þurfa ekki að greiða skatt, hvort sem það er erfðafjárskattur, fjármagnsskattur eða tekjuskattur, hafa þau meira á milli handanna og þurfa minna á styrk ríkissjóðs að halda til að halda úti þeirri starfsemi sem þau vilja.

Auk þess held ég að svona undanþága frá skattskyldu þýði að þau gætu boðið upp á þjónustu sem er jafnvel betri en sú sem ríkið býður upp á. Ef við hefðum ekki þessa góðu þjónustu frjálsu félagasamtakanna kæmu bara verr staddir einstaklingar til ríkisins og þyrftu á enn dýrari þjónustu að halda.

Ég spyr, virðulegi forseti, hv. þingmann hvort hún sé sammála því að samþykkt þessa frumvarps muni ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.