140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

skattaívilnanir í þágu tilgreindra félagasamtaka.

107. mál
[16:04]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur. Nákvæmlega eins og hv. þingmaður bendir á held ég að þetta gæti að einhverju leyti dregið úr kostnaðinum hjá ríkinu hvað varðar stuðning við frjáls félagasamtök, sérstaklega sem snýr þá að góðgerðarsamtökum. Ég held að það sé að mörgu leyti ágætt vegna þess að þá styddu einstaklingarnir sjálfir við þessi samtök og tækju ákvörðun um hvert þeir vildu beina fjármunum sínum. Orðspor í okkar litla samfélagi skiptir máli og raunar tala verkin þannig að fólk á þá auðveldara með að meta sjálft hvaða samtök skila mestum árangri á þeim sviðum sem fólk vill ná frekar en við þingmennirnir, eins og þegar við höfum fjallað um safnliðina. Það er einna helst þar sem við höfum getað stutt við þessa tegund af starfsemi.

Ég skal líka viðurkenna í þessu andsvari að ég hef saknað þess umtalsvert frá núverandi stjórnvöldum, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra lögðu sjálf fram sambærilegar tillögur þegar þau voru í stjórnarandstöðu, að þau skuli ekki hafa nýtt tækifærið á þeim tíma sem þau eru núna búin að vera í ríkisstjórn til að gera nákvæmlega þessar breytingar. Þá horfi ég líka til áherslunnar sem samstarfsstjórn Íhaldsflokksins og breskra framsóknarmanna í Bretlandi hefur verið með. Stjórnin hefur verið með sérstök verkefni sem hafa gengið út á að styðja við þriðja geirann og hvetja fólk til að taka þátt í sjálfboðastarfi og líka hvetja til starfsemi eins og samvinnufélaga með því (Forseti hringir.) að ríkisstarfsmenn geti til dæmis í auknum mæli yfirtekið starfsemi og veitt jafnvel betri (Forseti hringir.) þjónustu eins og hv. þingmaður benti á.