140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

skilgreining auðlinda.

58. mál
[16:18]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson og Gunnar Bragi Sveinsson.

Þessi þingsályktunartillaga gengur út á það að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að fá færustu sérfræðinga á sviði auðlindaréttar til að semja frumvarp sem skilgreini með tæmandi hætti hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru. Það er afar mikilvægt nú, virðulegi forseti, að þetta skref verði stigið vegna þess að Ísland er í aðlögunarferli að Evrópusambandinu og eins og allir vita er Evrópusambandið auðlindasækið og eirir ekki þeim auðlindum sem eru óskilgreindar í þeim ríkjum sem ganga í Evrópusambandið og það ræður yfir.

Auðlindir eru að litlu leyti skilgreindar hér á landi, við höfum fiskveiðiauðlindina sem eru sérlög um og þá er það nánast upptalið, og því ber okkur að standa vörð um auðlindir okkar, hverjar þær eru og hvernig á að nota þær. Það er afar brýnt að í gegn fari frumvarp sem snýr að þessum málum áður en til hugsanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu kemur vegna þess að ef við stöndum ekki sjálf vörð um auðlindir okkar gerir það enginn fyrir okkur. Það er enginn vilji hjá ríkisstjórninni til að fara þessa leið. Þrátt fyrir að Vinstri grænir séu með það á stefnuskrá sinni að ganga ekki í Evrópusambandið er þetta lagt fram af þingmönnum Framsóknarflokksins til að vernda hagsmuni þjóðarinnar. Það varðar almannahag að við höfum sjálf yfirráðarétt yfir öllum okkar auðlindum.

Þessi túlkun var staðfest á hinum fræga fundi sem Seðlabanki Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn héldu í síðustu viku. Kom þar fram í máli erlendra sérfræðinga að Evrópusambandið ásældist hér fyrst og fremst auðlindir okkar. Upphefðin verður að koma að utan. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið duglegir við að tala niður málflutning minn um auðlindirnar, en þarna var þetta staðfest af erlendum aðilum. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra, úr því að hann situr einn ráðherra í þingsal nú, taki þessi orð til sín og hafi forgöngu um það í ríkisstjórninni þegar þessi þingsályktunartillaga verður útrædd að hjálpa hæstv. forsætisráðherra við að skipa nefnd færustu sérfræðinga á sviði auðlindaréttar og smíða frumvarp sem snýr að því að skilgreina tæmandi hvað flokkast til auðlinda og hverjar auðlindir Íslands eru.

Á bls. 3 í þingsályktunartillögunni er ég með lista yfir hugsanlegar auðlindir og vísa í hvaðan þessi heimild er, úr auðlindaskýrslunni sem var gefin út árið 2000. Síðan eru liðin 11 ár og ekkert hefur verið hugað að þessum málum. Þess vegna þarf að uppfæra það hverjar auðlindir okkar eru. Það kemur fram í áliti auðlindanefndar sem sæti áttu í þau Karl Axelsson, Hreinn Hrafnkelsson og Dýrleif Kristjánsdóttir. Skýrslan heitir Um jarðrænar auðlindir og framtíðarnýtingu þeirra og þar kemur fram að skilningur höfunda á auðlindum. Eins og ég segi er hún orðin 11 ára gömul og því er nauðsynlegt að uppfæra það, en þar flokka þau til dæmis auðlindir í eftirfarandi flokka:

Land til beitar.

Land til nýbygginga.

Jarðorkulindir.

Jarðvegur.

Land til urðunar og móttöku úrgangs.

Námur.

Friðlýst land.

Land til skógræktar.

Land til útivistar.

Útsýni, landslagsheildir o.fl.

Villt dýr.

Örverur.

Fiskar.

Ómengað vatn.

Vatnsból.

Vatnsföll.

Efni á hafsbotni og neðan hans.

Hafið sem viðtaki úrgangs.

Nytjastofnar.

Siglingaleiðir.

Sjávarföll.

Hreint loft.

Andrúmsloftið sem viðtaki útblásturs.

Rafbylgjur til fjarskipta.

Vindorka.

Vistkerfið.

Ákveðnir stofnar, dýrastofnar.

Erfðaefni.

Þarna er þetta talið upp sem þau höfðu skilning á að væru hugsanlegar auðlindir okkar árið 2000 og þess vegna verður að fara af stað nú sem fyrst með vinnu til að skilgreina þetta enn betur því að síðan þessi skýrsla kom út árið 2000 hefur til dæmis bæst við ný auðlind, makríllinn. Fyrir nokkrum árum synti skyndilega ný auðlind inn í lögsöguna okkar, ný fisktegund sem hafði ekki þekkst hér áður.

Það er nefnilega svo, herra forseti, með náttúruauðlindir og auðlindir okkar að þær eru alltaf að verða fleiri og eftir því sem tækninni fleygir fram finnast nýjar. Ég er í þessari þingsályktunartillögu meðal annars að vísa í það að náttúruauðlindahugtakið hefur verið nokkuð bundið við ákveðna flokka eins og til dæmis fiskimiðin en ég er líka að tala um hafsbotninn og allt það sem er á landi, í lofti og á legi.

Mig langar í framhjáhlaupi að geta þess að nú fer Samfylkingin mikinn um það út af hverju hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi ekki farið í að innheimta veiðileyfagjald af makrílnum sem ég minntist á áðan, þessari nýju auðlind. Á sama tíma afhenti ríkisstjórnin Evrópusambandinu loftslagskvótann okkar upp á 15 milljarða. Það var á árinu 2007. Ef settur hefði verið kvóti á makrílinn eru ýmsir samfylkingarmenn búnir að reikna verðmætið upp í 10–12 milljarða og loftslagskvótinn er upp á 15 milljarða. Þarna er þá ríkið að tapa upp undir 30 milljörðum einungis vegna þessa. Það verður nefnilega að vera samfella í málflutningi ríkisstjórnarinnar. Ég barðist mjög fyrir því að ríkisstjórnin afhenti ekki þá auðlind sem loftslagsheimildirnar okkar eru, en á það var ekki hlustað. Það er vegna þess að aðildarumsóknin liggur inni hjá Evrópusambandinu og til að umsóknin gæti haldið áfram setti Evrópusambandið það skilyrði að við mundum afsala okkur íslenska ákvæðinu og ganga inn í viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarkvótann.

Sú nýja auðlind sem þarna varð skyndilega til með úthlutun losunarkvótans á sínum tíma í gegnum Kyoto-bókunina var raunverulega gefin til baka. Þess vegna verðum við að standa vörð um náttúruauðlindir okkar, hverjar sem þær eru, og skilgreina þær samkvæmt íslenskum lögum þannig að erlendir aðilar geti ekki komist yfir þær. Það er mjög mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess sem ég kom inn á áðan, að þetta er það sem Evrópusambandið sækist fyrst og fremst eftir.

Siglingaleiðir sem opnast fyrir norðan landið eru mikil náttúruauðlind og það er meðal annars það sem Evrópusambandið er að huga að með inngöngu Íslands. Svo eru verðmæti í Norðursjó, olía. Það er aðgangur að norðurskautsráðinu og svona mætti lengi telja.

Í þingsályktunartillögunni fer ég í I. kafla yfir auðlindaréttinn sjálfan sem fræðigrein og hvet ég þá sem hafa áhuga á auðlindarétti yfir höfuð til að lesa þessa þingsályktunartillögu. Hana má finna á þskj. 58, 58. mál, á vef þingsins. Þar fer ég yfir þessa nýju réttarheimild því að auðlindaréttur var ekki þekktur hér á árum áður og er tiltölulega ný fræðigrein innan lögfræðinnar, jafnvel nýrri en umhverfisrétturinn sem hingað til hefur verið talinn yngstur í þeirri fræðigrein.

Ég fer líka í II. kafla almennt yfir náttúruauðlindir, hvernig þær koma til og hvernig þær eru virkjaðar. Svo fer ég yfir hugtakanotkun líka, hvað hugtakið auðlind er því að það er mjög víðfeðmt og nær til margra þátta samfélagsins eins og ég fór yfir áðan. Talið er að allir þættir náttúrunnar, jörðin, lífríkið, vatnið, sólarljósið og loftið, geti talist til náttúruauðlinda. Auðlindir geta einnig verið skilgreindar sem þjóðareign, eins og við höfum fjallað svo oft um á Alþingi, svo sem fiskstofnar og orkulindir.

Í IV. kafla fer ég yfir eignarhaldið á auðlindunum. Það er einnig mjög mikilvægt að skilgreina það. Við munum öll hvernig ævintýrið um HS Orku fór. Miklar deilur spruttu upp um eignarhaldið á auðlindinni sjálfri og svo nýtingu á henni. Það verður að skilgreina heildstætt hér á landi því að sumir rugla saman nýtingarrétti og auðlindinni sjálfri. Þetta verður að skýra með sérstakri lagasetningu sem ætti þá vel heima í vinnu þeirrar auðlindanefndar sem ég legg til að verði stofnuð í kjölfar þessarar þingsályktunartillögu. Mörkin þarna á milli verða að vera alveg skýr, sérstaklega þegar við horfum á það að útlendingar eru raunverulega farnir í meira mæli að ásælast eigur Íslendinga. Ég get nefnt sem dæmi að útlendingur ásælist núna stóra jörð þar sem er mikið víðerni sem gæti hæglega verið flokkað sem auðlind. Ég er að vísa í Grímsstaði á Fjöllum. Þess vegna er mjög brýnt að strax verði tekið á þessum málum.

Við verðum að minnka ágreiningsefnin í samfélaginu. Sumir eru fylgjandi því að erlendir aðilar megi kaupa hér jarðir án undanþágu. Það eru ákveðin heimildarákvæði fyrir því í EES-samningnum að aðilar og lögaðilar innan EES fái að kaupa jarðir og þurfa þá ekki undanþágu til þess en aðilar utan EES þurfi að fá samþykki innanríkisráðuneytisins til að mega fjárfesta. Í málinu með HS Orku var stofnað skúffufyrirtæki á EES-svæðinu og þannig komst eignarhaldið í hendur aðila sem var í raun utan EES-svæðisins. Þarna verðum við að stoppa í lögin og það fyrr en seinna því að eftir því sem siglingaleið um norðurslóðir verður nær í tíma, því meiri ásókn verður í landgæði Íslendinga. Við vitum að Kínverjar hafa mikinn áhuga á þessari leið og hafa jafnvel skoðað hugmyndir um að koma inn með fjármagn til að byggja upp og gera hafnir sem dæmi. Þess vegna verður löggjafinn að vera skrefi á undan til að bregðast við fyrir fram en ekki sífellt eftir á. Einhvern tíma sagði ég að Alþingi væri fjórum til fimm árum á eftir viðskiptalífinu. Það sannaðist í bankahruninu sem dæmi. Þegar þau ósköp gengu yfir var það vegna þess að Alþingi hafði ekki sett nógu skýr og skotheld lög. Svo er brugðist við eftir á. Raunverulega er Alþingi enn þá að afgreiða mál tengd bankahruninu til að stoppa í göt í lögum í stað þess að lagasetningin sé hrein og klár þannig að allir viti eftir hvaða leikreglum er verið að spila.

Í VI. kafla þingsályktunartillögunnar fer ég yfir leiðir sem eru færar til auðlindastjórnunar. Þar er nefnt sem dæmi eignarréttarskipan, leiðréttandi gjöld og uppbætur, svokallaðir grænir skattar, magntakmarkanir og tæknileg skilyrði.

Í VII. kafla fer ég yfir hagfræðileg álitaefni sem við verðum að líta til við auðlindastjórn og svo velti ég vöngum yfir VIII. kafla um hvernig við eigum að haga gjaldtöku af náttúruauðlindum hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að málið fái skjóta afgreiðslu. Að umræðu lokinni óska ég eftir því að þingsályktunartillagan fari í viðeigandi nefnd, verði send til umsagnar og komi svo sem fyrst fyrir þingið aftur því að það er mjög brýnt fyrir okkur að þessi leið verði gengin, að við skilgreinum auðlindir okkar, hverjar þær eru og hvernig á að nýta þær og setjum sérstakan (Forseti hringir.) lagaramma um þær.