140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

málshöfðun og skaðabótakrafa á hendur breska ríkinu, NATO og ESB.

82. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um málshöfðun og skaðabótakröfu á hendur breska ríkinu, Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu vegna beitingar hryðjuverkalaga. Samkvæmt henni ályktar Alþingi að fela ríkisstjórn Íslands að höfða mál á hendur breska ríkinu vegna hryðjuverkalaganna sem beitt var gegn Íslendingum við bankahrunið og gegn Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu fyrir afskiptaleysi þeirra. Ríkisstjórnin krefjist skaðabóta að fjárhæð 11.000 milljarðar kr. vegna áhrifa af beitingu hryðjuverkalaganna fyrir sjálfstæði Íslands, virðingu, efnahag og ímynd þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.

Beiting hryðjuverkalaganna hjá Bretum var ótrúlega ósvífin árás á litla, sjálfstæða þjóð. Til að mynda þegar þáverandi forsætisráðherra Bretlands lýsti því yfir í heimsfréttum að Íslendingar væru gjaldþrota var það stórkostlegt slys og gríðarlega vont mál fyrir Íslendinga. Það hefur sýnt sig, virðulegi forseti, að þessar yfirlýsingar og gjörðir Breta höfðu ákaflega mikil áhrif á viðskipti Íslendinga um allan heim. Til að mynda kom það mjög niður á fjölda íslenskra fyrirtækja í nánast öllum heimshornum.

Þessi gjörð setti mjög neikvæðan stimpil á Íslendinga sem flaug í fréttir allra fjölmiðla í heiminum og þar dúkkaði litla Ísland upp, og Íslendingar sem óbótamenn. Gjörðin var slík að það er ástæða til að krefjast skaðabóta af hálfu Breta. Það er sanngirnismál vegna þeirrar hrikalegu árásar og álitshnekkis sem Íslendingar urðu fyrir vegna gjörða Breta og það mun taka langan tíma og kosta mikið bæði í vinnu, fjármagni og útsjónarsemi að vinna aftur sess fyrir Ísland á alþjóðavettvangi í viðskiptum og öðru vegna þessara fúaverka breskra stjórnvalda.

Það er stungið upp á því, virðulegi forseti, að þess verði krafist að Bretar greiði 10.000 milljarða kr. Svo koma 1.000 milljarðar í viðbót sem skiptast á milli liðléttinganna hjá Bretum, Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins. Það hefur verið sagt að það hafi verið aðalsmerki Atlantshafsbandalagsins að þar væru allir fyrir einn og einn fyrir alla. Þegar ráðist er með slíkum efnahagslegum hætti á sjálfstæða íslenska þjóð sem er í Atlantshafsbandalaginu eru það svik við málstaðinn, svik við skylduna og hefðina að taka ekki upp hanskann fyrir þá þjóð sem ráðist er á. Þar brást Atlantshafsbandalaginu bogalistin svo um munar og er til ævarandi skammar fyrir þann klúbb. Auðvitað á að skoða það af fullri alvöru, eins og kom fram hér fyrr í dag í máli hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, hvort við eigum ekki bara að gefa þessum aðilum frí. Það er nefnilega ekki nóg að við látum í okkur heyra, við skulum setja fram kröfur, láta kné fylgja kviði. Þessum mannskap sem vinnur svona er ekki treystandi og við eigum ekkert að vera í slagtogi með þeim sem ekki er treystandi. Látum reyna á kröfugerðina.

Alveg það sama má segja um Evrópusambandið. Við erum í ákveðnum skuldbindingum og samningum og samfylgd og samfloti með Evrópusambandinu í gegnum Evrópska efnahagssvæðið og þar höfum við bæði réttindi og skyldur. Skyldurnar höfum við staðið við en á okkur hefur verið hallað með réttindin því að auðvitað á Evrópusambandið að taka upp hanskann fyrir þjóð sem er í þessum hópi þegar á hana er hallað. Nei, þá þögðu herrarnir í Brussel og nörtuðu í sinn kæfubelg. Þeir eru ekkert betri en Atlantshafsbandalagið eða Bretarnir, þetta er nákvæmlega sama naglasúpan. Við skulum bara finna okkur aðrar leiðir ef þeir keyra svona á sjálfstæði okkar, efnahag, menningu og virðingu.

Þetta sýnir best að við eigum enga samleið með þessu liði. Svo kemur berlega í ljós eins og í þessu máli að þeir kunna ekki að vera stóri bróðir, þeir kunna ekki að vera sá reyndi og sterki í hópnum heldur níðast á þeim sem eru minni máttar. Við Íslendingar munum standa það af okkur en gjörðin er söm.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þessi tillaga er nú lögð fram í annað skipti. Hún var lögð fram á síðasta þingi en þá var ekki sami hljómgrunnur fyrir henni og maður heyrir víða nú. Nú hafa íslensk stjórnvöld bryddað upp á því að þau kunni að sækja þessa aðila, Breta, Hollendinga, Evrópusambandið o.fl., til saka og sækja rétt til skaðabóta. Ef menn hefðu verið vel á verði og hugsað aðeins fram í tímann hefðu þeir hlustað á orð mín í fyrravetur og málið væri komið í fullan gang. Við vitum aldrei hvað verður í þessu krumpaða réttarkerfi vestrænnar menningar þar sem geðþóttinn ræður mjög oft ríkjum og ekkert samræmi er í hlutum, heldur hagsmunir ýmissa landa látnir sitja í fyrirrúmi. Við erum í raun að tala um réttarkerfi sem er miklu frekar fyrir bavíanalýðveldi en vestrænt lýðveldi eins og við teljum okkur trú um að við búum við í dag.

Það er alltaf álitamál hvaða upphæð maður setur fram í kröfugerð, en 10.000 milljarðar ættu að duga eitthvað til þess að markaðssetja Ísland upp á nýtt á vettvangi alþjóðasamfélagsins. Það er alveg eins hægt að segja að það sé hvorki of né van. Slíkt verður aldrei reiknað út til hlítar en í þessu sem öðru eigum við að hafa borð fyrir báru og miða við upphæð sem er raunhæft að ætla megi að notist í slíkt verkefni. Kröfur á hendur Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu eru smápeningar miðað við stærstu upphæðina en það sýnir þó vilja okkar og afstöðu til að láta ekki traðka á okkur. Bretar þekkja það kannski úr stjórnsýslu sinni í gegnum aldirnar að kengúrurnar í Ástralíu eiga það til að traðka á minni dýrum, minni verum í samfélagi (Forseti hringir.) landsins. Hið sama er að segja um þetta, þessar þjóðir tröðkuðu á Íslendingum eins og kengúrur.