140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

aðgengi að hverasvæðinu við Geysi.

80. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Tillagan til þingsályktunar um aðgengi að hverasvæðinu við Geysi miðar að því að innanríkisráðherra og umhverfisráðherra sjái til þess nú þegar að umbætur verði gerðar á aðgengi ferðamanna að þessu mest sótta ferðamannasvæði landsins, Geysis- og Gullfosssvæðinu.

Þar er til dæmis mjög brýnt að gera göng undir þjóðveginn, göng frá þjónustunni við Hótel Geysi og því svæði þar sem ferðamennirnir stansa og inn fyrir hlið hverasvæðisins, auk þess að gangstígar allir hafa drabbast niður. Þeir voru gerðir fyrir liðlega 20 árum. Sá er hér stendur var þá í Geysisnefnd sem dreif af stað ýmsa hluti til framkvæmda og lagfæringar á Geysissvæðinu. Síðan var Geysissvæðið fært undir Náttúruverndarráð og umhverfisráðuneyti og frá þeim tíma, í tæp 20 ár, hefur ekki verið hreyft við einni einustu gangstéttarhellu á svæðinu og engar merkingar lagfærðar. Þær eru nú máðar og standa berstrípaðir staurar án þess að hægt sé að skilja viðvaranir eða annað á svæðinu. Þetta er með ólíkindum á þessum fjölsótta ferðamannastað þar sem 400–500 þús. farþegar og ferðamenn koma á hverju ári.

Lagt er til að þetta sé gert á myndarlegan hátt. Þetta er nefnilega ekki spurning um mikla peninga, heldur um að gera þetta snyrtilega og markvisst og þannig að það sé sæmandi fyrir Íslendinga að bjóða fólki að heimsækja þetta ótrúlega náttúruríka og sérstæða svæði. Um þetta snýst málið. Hótel Geysir hefur byggt upp glæsilega aðstöðu á heimsmælikvarða með frábæru náttúrusafni fyrir gesti og gangandi. Þarna eru veitingasalir, gistiaðstaða og söfn, en verkþáttur ríkisins er til háborinnar skammar.

Þessi tillaga er flutt í því skyni að freista þess að vinna bráðan bug á því ófremdarástandi og óöryggi sem er á hverasvæðinu Geysi, móðurskipi allra hvera í heiminum.